Miðstjórn ASÍ fordæmir  vaxtahækkun Íslandsbanka 

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) hefur samþykkt eftirfarandi ályktun:

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) fordæmir þá ákvörðun Íslandsbanka að hækka vexti á verðtryggðum lánum á sama tíma og verðbólga gengur niður og vonir vakna um að hagur almennings taki að batna. Þessi viðbrögð við löngu tímabærri lækkun stýrivaxta Seðlabankans jafngilda því að stjórnendur Íslandsbanka hafi kastað blautri og illa þefjandi tusku sinni beint í andlit landsmanna.  

Miðstjórn telur óboðlegt með öllu að stjórnendur Íslandsbanka skuli nánast á sömu mínútu og tilkynnt var um 0,50 prósentustiga  lækkun stýrivaxta Seðlabankans greina frá því að breytilegir verðtryggðir vextir hækki um 0,30 prósentustig. Þessi gjörningur er enn ein sönnun þess hvernig fjármálavaldið ætlar ekki að missa mínútu úr við að mergsjúga fólkið í landinu.   

Vakin skal athygli á að með hækkuninni í gær, miðvikudaginn 20. nóvember, hefur Íslandsbanki hækkað breytilega verðtryggða vexti um 0,80 prósentustig á síðustu 60 dögum. Mjög margir lántakendur sem trúðu gaspri stjórnmálamanna um efnahagslegan stöðugleika hafa staðið og standa nú frammi fyrir því að fastir vextir eru að losna. Flestir neyðast til að endurfjármagna lánin með verðtryggðum lánum. Þannig  hefur íslenskum lántakendum skipulega verið „smalað“ yfir í hið verðtryggða lánaform til að gefa bönkum færi á frekari vaxtahækkunum. Á sama tíma fækkar þeim sem greiða af óverðtryggðum lánum sínum. Þá vexti lækkar því Íslandsbanki.   

Miðstjórn ASÍ telur með öllu óásættanlegt að nú þegar launafólk hefur sýnt ábyrgð við gerð kjarasamninga og árangur er tekinn að sjást að fjármálastofnanir nýti tækifærið og hækki verðtryggða vexti með það að markmiði að viðhalda óeðlilegri arðsemi á fákeppnismarkaði. Nú þegar hefur almenningur þurft að horfa upp á bankana stinga lækkun bankaskatts í vasa eigenda frekar en að skila ábatanum til neytenda. Ósvífnin er fullkomnuð þegar bönkum er falið að innheimta ábata kjarasamninga í krafti einokunar.   

Miðstjórn Alþýðusambandsins telur að launafólk fái ekki þolað lengur það siðleysi sem fær þrifist óáreitt innan íslenska bankakerfisins. Á þessum „markaði“ ríkir gjörspillt fákeppni sem einkennist af ógegnsæi og  græðgi.