Fyrr í vikunni komu rúmlega 50 félagsmenn og makar þeirra heim úr ferð sem félagið stóð fyrir til Færeyja sem tókst í alla staði mjög vel. Hér fyrir neðan má sjá ljóðapóst sem einn ferðalanga, Davíð Hjálmar Haraldsson, samdi í ferðinni og sendi til félagsins.
Eining-Iðja fær bestu þakkir fyrir ferðina núna til Færeyja. Björn fyrrverandi formaður fær sérstakar kveðjur og þakkir fyrir frábæra fararstjórn. Undirritaður samdi eitthvað af vísum í ferðinni og eru hér nokkrar þeirra.
Í Færeyjum við ferðalög og reisur
fólkið verður duglegra og betra
og Anna Gréta prjónar fjórar peysur
með prjónum númer fimm á kílómetra.
Færeyingar eru afar duglegir að grafa jarðgöng milli eyja.
Færeyingar grafa göng
og gjarna fátt til spara
og ef þeir grafa göngin þröng
þeir grafa ný til vara.
Þeir eiga naumast nokkurn foss
né naut og kýr en örfá hross
en grafa þvers og grafa í kross
og grafa – af því bara.
Færeyingar eru einnig duglegir að leggja malbikaða vegi hvar sem ökutæki finnst.
Í Færeyjum er gatan greið
um grund og bjarg og fjöru
og sérhver kemst þar sína leið
með sjófang allt og vöru
því malbikið það gerir gagn,
menn gæta þess að spara ei magn
og eigi bóndi barnavagn
fær bær hans veg með tjöru.
Keli bílstjóri var ótrúlega laginn að smjúga á rútunni um þröng húsasund og lék sér að því að snúa bílnum á bletti sem var mun mjórri en breidd bílsins nam.
Keli er klár á rúntinum.
Keli snýr við á púnktinum.
Keli er bestur bílstjóra,
í Búrma þeir vilja hann fílstjóra.
Einn morguninn átti að skoða veitingastað þar sem snæða átti um kvöldið. Frá því var horfið.
Yfir fólki hérna hýrnar,
hrollinn burt það rekið fær.
Skelfing væri að skoða kýrnar
og skömmu síðar éta þær.
En jafnvel skemmtilegustu ferðalög taka endi og heimferðin tekur við.
Ferð með Bjössa er fjarska mikils virði!
Nú ferjan kyssir bryggju á Seyðisfirði
og snjór á Fjöllum gæti engan undrað.
En Anna Gréta prjónar enn á hundrað.
DHH