Bónus var oftast með lægsta verðið í verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ á jólamat sem framkvæmd var þann 13. desember sl. Verð á 137 matvörum var kannað og var Bónus með lægsta verðið í 83 tilvikum, Fjarðarkaup í 22 tilvikum, Krónan í 16, Nettó í 12 tilvikum. Heimkaup var oftast með hæsta verðið, í 51 tilviki, Iceland í 38 tilvikum og Hagkaup í 30 tilvikum. Fjarðarkaup átti flestar vörur af þeim sem kannaðar voru eða 136 af 137 en Heimkaup fæstar, 84. Oft var einungis nokkurra króna munur á verði hjá Bónus og Krónunni í könnuninni og var Bónus að meðaltali 4,5% frá lægsta verði en Krónan 4,7%.
Tilboð eru víða í matvöruverslunum nú fyrir hátíðarnar og verðbreytingar tíðar. Neytendur ættu því að vera vel vakandi vilji þeir gera hagstæð innkaup á jólamatnum.