Vert er að minna á að búið er að setja inn nýja kauptaxta sem tóku gildi þann 1. janúar sl. inn á heimasíðuna.
Eining-Iðja hvetur launafólk til að fylgjast vel með hvort næstu launahækkanir skili sér rétt og örugglega í launaumslagið. Laun og launatengdir liðir skv. núgildandi kjarasamningum hækkuðu sem hér segir:
Starfsfólk á almennum vinnumarkaði
Þann 1. janúar 2022 hækkuðu kauptaxtar á almenna markaðinum um kr. 25.000 og almenn mánaðarlaun fyrir fullt starf hækkuðu um kr. 17.250. Aðrir kjaratengdir liðir kjarasamningsins hækkuðu um 2,5% á sömu dagsetningu. Einnig hækkuðu lágmarkstekjur fyrir fullt starf og verða 368.000 kr. á mánuði fyrir fullt starf frá 1. janúar 2022.
Starfsfólk sveitarfélaga
Þann 1. janúar 2022 hækkuðu kauptaxtar hjá sveitarfélögunum um kr. 25.000.
Starfsfólk ríkisins
Þann 1. janúar 2022 hækkuðu kauptaxtar hjá ríkinu um kr. 17.250.
Hagvaxtarauki
Í samningunum segir að á árunum 2020-2023 komi til framkvæmdar launaauki á grundvelli þróunar vergrar landsframleiðslu á hvern íbúa. Útreikningur launaaukans byggir á bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands um vísitölu vergrar landsframleiðslu á mann sem birtast í byrjun mars ár hvert fyrir næstliðið ár.
Launaaukinn bætist bæði við mánaðarlaunataxta kjarasamninga og föst mánaðarlaun fyrir dagvinnu. Taflan hér fyrir neðan sýnir fjárhæð launaaukans og forsendur hans.
Verg landsframleiðsla á hvern íbúa, |
Launaauki á mánaðarlaunataxta |
Launaauki á föst mánaðarlaun |
1,0 - 1,50% |
3.000 kr. |
2.250 kr. |
1,51 - 2,00% |
5.500 kr. |
4.125 kr. |
2,01 - 2,50% |
8.000 kr. |
6.000 kr. |
2,51 - 3,00% |
10.500 kr. |
7.875 kr. |
> 3,0% |
13.000 kr. |
9.750 kr. |
Við ákvörðun launaauka vegna áranna 2019-2022, sem koma til framkvæmdar árin 2020-2023, skal taka tillit til uppfærðra bráðabirgðatalna fyrir þau ár sem lögð hafa verið til grundvallar við útreikning launaaukans. Launaaukinn greiðist 1. maí.
Launa- og forsendunefnd aðila ákvarðar fjárhæð launaaukans verði tilefni til greiðslu hans.
Nýjasta þjóðhagsspá Seðlabanka Íslands gerir ráð fyrir 4 prósenta hagvexti á þessu ári eftir 6,5 prósenta samdrátt á árinu 2020. Þrátt fyrir að landsframleiðsla í lok ársins verði minni en hún var í lok árs 2019 verða laun hækkuð í maí á næsta ári, líklega um 13 þúsund krónur, vegna ákvæðis um hagvaxtarauka. Hagvaxtaraukinn leggst ofan á hækkanir sem urður um síðustu áramót.
Félagið hvetur félagsmenn til að fylgjast vel með á launaseðlinum hvort þessar launahækkanir skili sér ekki alveg örugglega til þeirra.