Laun um jólin

Samkvæmt kjarasamningum ber atvinnurekendum að greiða starfsfólki yfirvinnu eða eftir atvikum álag á stórhátíðum, en þeir dagar sem slíkt gildir um eru:

  • aðfangadagur eftir kl. 12
  • jóladagur
  • gamlársdagur eftir kl. 12
  • nýársdagur

Öll vinna á stórhátíðardögum greiðist með tímakaupi, sem er 1,375% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu. Fyrir yfirvinnu á öðrum frídögum skal greiða 80% álag á dagvinnutímakaup eða 1,0385% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu. Annar í jólum telst almennur frídagur.

 ATH! eftir vinnutímastyttinguna þá gildir önnur regla varðandi vaktavinnu fyrir starfsmenn hjá ríki og sveitarfélögum. Breytingar sem urðu frá 1. maí 2021 má t.d. sjá á vefnum www.betrivinnutimi.is

Réttindi vaktavinnufólks um jólin á almennum vinnumarkaði

Vaktavinnufólk sem vinnur skv. kjarasamningi SGS og Eflingar og hótel og veitingahúsa ætti að hafa þessi atriði í huga yfir hátíðarnar: 

  • Vaktir þurfa að endurspegla starfshlutfall í ráðningarsamningi.
  • Ekki má breyta vöktum eða taka af vaktir ef það skerðir starfshlutfall og hefur þ.a.l. neikvæð áhrif á laun.
  • Ef fyrirtæki lokar yfir hátíðarnar þarf að tilkynna starfsfólki um það með a.m.k. mánaðar fyrirvara. Æskilegt er að þessi ákvörðun liggi fyrir eigi síðar en 1. apríl. Að öðrum kosti á starfsfólk sem þegar hefur tekið orlofið sitt hugsanlega rétt á launum á meðan lokað er.
  • Starfsfólk í vaktavinnu á að fá greitt álag á stórhátíðardaga og aðra frídaga um jólin.

Frídagar um jól og áramót eru:

  • aðfangadagur eftir kl. 12.00 – 90% álag
  • jóladagur – 90% álag
  • annar í jólum – 45% álag
  • gamlársdagur eftir kl. 12.00 – 90% álag 

Í vaktavinnu eru til tvær reglur um greiðslur á þessum dögum. Annarsvegar hjá þeim sem fá vetrarfrí og svo hjá hinum sem ekki eru með vetrarfrí. 

1) Yfirvinnu- eða stórhátíðarkaup ásamt óskertum dagvinnulaunum
Greitt er yfirvinnu- eða stórhátíðarkaup fyrir vinnu á rauðum degi auk þess sem starfsmaður heldur óskertum dagvinnulaunum. Við þess konar fyrirkomulag er almennt gert ráð fyrir að starfsmaður sé í fríi á rauðum dögum, nema um annað hafi verið samið eða leiði af eðli starfseminnar.

2) Vaktaálag og vetrarfrí
Greitt er vaktaálag fyrir vinnu á rauðum degi og er það almennt 45% á frídögum og 90% á stórhátíðardögum. 

Auk vaktaálags ávinnur starfsmaður sér inn 12 vetrarfrídaga miðað við ársstarf (96 dagvinnustundir m.v. 40 stunda vinnuviku) fyrir almenna frídaga og stórhátíðardaga sem falla á mánudaga til föstudaga. Sé vinnustað lokað á þeim dögum eða frí veitt fækkar vetrarfrídögum samsvarandi.

í kjarasamningi SGS og Eflingar og hótel og veitingahúsa eru ákvæði um vetrarfrídaga vaktavinnumanna vegna rauðra daga: 

  • 3. kafli vegna veitinga- og gistihúsa o.fl.
  • 22. kafli vegna ræstingar í vaktavinnu