Lágmarkskauptaxtar hækka um 0,58% frá 1. apríl nk.

Í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði sem undirritaðir voru 7. mars 2024 var samið um kauptaxtaauka sem felur í sér að hækki launavísitala á almennum vinnumarkaði umfram umsamdar taxtahækkanir, hækka allir lágmarkskauptaxtar um sama hlutfall frá 1. apríl ár hvert.

Sérstök launa- og forsendunefnd kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, sem skipuð er fulltrúum frá ASÍ og SA, kom saman til fyrsta fundar föstudaginn 7. mars sl. Nefndin hefur úrskurðað að kauptaxtaauki virkist frá og með 1. apríl næstkomandi og munu lágmarkskauptaxtar kjarasamninga hækka um 0,58% frá og með 1. apríl 2025. Ný launatafla hefur verið gefin út í samræmi við þessa ákvörðun. Nýir kauptaxtar verða tilbúnir nk. mánudag og aðgengilegir hér.

Meginmarkmið stöðugleikasamninganna sem undirritaðir voru í fyrra var að stuðla að minnkun verðbólgu og lækkun vaxta og var forsendunefndin sammála um að árangur samninganna hafi verið merkjanlegur. Verðbólga hefur hjaðnað og vextir lækkað á sama tíma og kaupmáttur launa hefur aukist. Forsendur eru fyrir framhaldi þar á, þótt óvissa um efnahagshorfur hafi aukist á alþjóðavettvangi.

Í yfirlýsingu sinni hvetur forsendunefndin stjórnvöld, Seðlabankann og fyrirtæki til að vinna áfram að markmiðum samninganna og skapa þannig forsendur fyrir áframhaldandi minnkun verðbólgu og lækkun vaxta. Einnig er brýnt að ríki og sveitarfélög gæti hófs í gjaldskrárhækkunum og stuðli einnig að hraðari íbúðauppbyggingu. 

Yfirlýsing launa- og forsendunefndar í heild sinni

Kauptaxtaauki tekur gildi 1. apríl
Launa- og forsendunefnd kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, sem skipuð er fulltrúum frá ASÍ og SA, kom saman til fyrsta fundar föstudaginn 7. mars. Á fundinum var úrskurðað að kauptaxtaauki virkjast frá og með 1. apríl næstkomandi. Kauptaxtaaukinn felur í sér að kauptaxtar kjarasamninga hækki um 0,58% frá og með 1. apríl og skýrist af því að launavísitala á almennum markaði hækkaði umfram umsamdar taxtahækkanir viðmiðunartaxtans á fyrsta tímabili stöðugleikasamningsins.

Nefndinni, sem starfar samkvæmt kjarasamningum á árunum 2024-2028, ber að fylgjast með framvindu efnahagslífs og mögulegum áhrifum á markmið samninga um minnkun verðbólgu og lækkun vaxta. Nefndinni ber jafnframt að leggja mat á samningsforsendur í september 2025 og september 2026.

Verðbólga gengið niður og kaupmáttur aukist
Meginmarkmið samninganna er að stuðla að minnkun verðbólgu og lækkun vaxta. Verðbólga mældist um 8% þegar undirbúningur kjarasamninga hófst haustið 2023. Forsendunefndin er sammála um að árangur samninganna hafi verið merkjanlegur, verðbólga mælist í dag 4,2% en 2,7% ef horft er fram hjá áhrifum húsnæðisverðs. Kaupmáttur launa hefur aukist á fyrsta ári samnings.

Seðlabankinn hóf vaxtalækkunarferli í október síðastliðnum og hafa stýrivextir lækkað um 1,50 prósentur frá gerð samninga. Á sama tíma hefur aðhald peningastefnunnar aukist og raunvextir hækkað.

Aukin óvissa um efnahagshorfur
Forsendur eru fyrir áframhaldandi hjöðnun verðbólgu á næstu mánuðum og þar með frekari lækkun vaxta. Hins vegar hefur alþjóðleg óvissa um efnahagshorfur aukist og hætta á að Ísland verði fyrir áhrifum af vaxandi átökum á alþjóðavettvangi og viðskiptastríðum. Forsendunefndin telur mikilvægt að stjórnvöld, Seðlabanki Íslands og fyrirtæki vinni áfram að markmiðum samninganna og skapi þannig forsendur fyrir áframhaldandi minnkun verðbólgu og lækkun vaxta. Þar telur nefndin brýnt að ríki og sveitarfélög vinni með peningastefnunni, gæti hófs í álagningu gjalda og taki markviss skref í íbúðauppbyggingu.