Boðað er til kvennaverkfalls á morgun, 24. október 2023, undir yfirskriftinni Kallarðu þetta jafnrétti? Eining-Iðja skorar á félagsfólk að leggja sitt af mörkum í baráttunni fyrir jafnrétti á þessum degi og skorar jafnframt á fyrirtæki að sýna samstöðu í verki svo konur og kvár geti lagt niður störf þennan dag, án skerðingar á launum.
Samtök launafólks ásamt fjölmörgum öðrum baráttusamtökum kvenna og hinsegin fólks standa að þessum degi í ár. Konur og kvár sem það geta eru hvött til að mæta ekki til vinnu þennan dag og sinna jafnframt ekki þeim störfum og ábyrgð sem felst í annarri og þriðju vaktinni.
Sýnum samstöðu í verki og mætum á baráttufund sem verður á milli kl. 11:00 og 11:45 á Ráðhústorgi á Akureyri.
FJÖLMENNUM, DÖNSUM, SYNGJUM OG HÖFUM HÁTT!
Mættu snemma, kíktu í tjaldið á torginu kl. 10:30 og búðu til þitt eigið kröfuspjald! Allt efni á staðnum. Hver er þín krafa?