Boðað er til kvennaverkfalls á morgun, 24. október, undir yfirskriftinni Kallarðu þetta jafnrétti? Eining-Iðja skorar á félagsfólk að leggja sitt af mörkum í baráttunni fyrir jafnrétti á kvennafrídeginum og skorar jafnframt á fyrirtæki að sýna samstöðu í verki svo konur og kvár geti lagt niður störf þennan dag, án skerðingar á launum.
Samtök launafólks ásamt fjölmörgum öðrum baráttusamtökum kvenna og hinsegin fólks standa að þessum degi í ár. Konur og kvár sem það geta eru hvött til að mæta ekki til vinnu þennan dag og sinna jafnframt ekki þeim störfum og ábyrgð sem felst í annarri og þriðju vaktinni.
Á Akureyri verður útifundur þennan dag á milli kl. 11:00 og 11:45 á Ráðhústorgi og hvetur félagið allar konur og kvár til að sýna samstöðu og mæta á fundinn.
Kvennaverkfallið er ekki verkfall eins og vinnulöggjöfin segir til um. Launafólk tekur þátt á eigin forsendum og hvetjum við konur og kvár að fá heimild hjá sínum yfirmanni til að taka þátt og berjast fyrir jafnrétti.
Eining-Iðja hvetur atvinnurekendur til að heimila starfsfólki sínu að taka þátt án þess að skerða laun.
*****