Í gær fór fram fundur í samninganefnd félagsins þar sem samþykkt var kröfugerð félagsins gagnvart stjórnvöldum og fyrir samningana á almenna markaðinum. Búið er að senda kröfugerðina til samninganefndar Starfsgreinasambandsins sem punktar félagsins inn í kröfugerð sambandsins, en á fundi nefndarinnar sem haldinn var í lok mars var samþykkt að veita SGS umboð til kjarasamningagerðar fyrir hönd félagsins vegna kjarasamninga á almenna vinnumarkaðnum, sem gilda til 1. nóvember 2022. Umboð var veitt annars vegar vegna aðalkjarasamnings á milli SGS og SA og hins vegar vegna kjarasamnings SGS við SA vegna veitinga-, gisti-, þjónustu-, og greiðasölustaða, afþreyingarfyrirtækja og hliðstæðrar starfsemi.
Kröfugerðin er unnin upp úr niðurstöðum könnunar sem Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri gerði fyrr á árinu fyrir félagið þar sem félagsmenn voru spurðir út í áherslur í kröfugerð fyrir næstu samninga. Þær niðurstöður spegluðu vel niðurstöður funda sem haldnir voru með trúnaðarmönnum félagsins í mars sl.
Starfsgreinasambandið mun standa fyrir kjaramálaráðstefnu 23. og 24. maí nk. Þar munu þau félög sem veitt hafa sambandinu umboð til kjarasamningagerðar kynna sínar áherslur varðandi kröfugerðina og mótuð verða drög af sameiginlegri kröfugerð sem send verður félögunum til samþykktar.
50 félagsmenn og níu varamenn skipa samninganefnd Einingar-Iðju og eru allir nefndarmenn boðaðir á alla fundi.
Þannig er skipað í nefndina:
Aðalmenn | Varamenn | ||
Aðalstjórn | 7 | 0 | |
Matvæla- og þjónustudeild | 16 | 4 | |
Opinbera deildin | 14 | 3 | |
Iðnaðar- og tækjadeild | 8 | 2 | |
Frá trúnaðarráði | 5 | 0 | |
Samtals | 50 | 9 |