Kjaramálaráðstefna SGS

Í dag og á morgun, 23. og 24. maí, fer fram kjaramálaráðstefna SGS á Hótel Örk í Hveragerði.

Björn formaður og Anna varaformaður munu mæta fyrir hönd félagsins á hana þar sem m.a. verður farið yfir núgildandi samning á almenna markaðinum, þ.e. við Samtök atvinnulífsins. Einnig verður farið yfir stöðuna og horfur í efnahagslífi og á vinnumarkaði. Fulltrúar frá þeim félögum sem mæta á fundinn munu kynna kröfugerðir sinna félaga og unnið verður að sameiginlegri kröfugerð Sambandsins. Kröfugerð Einingar-Iðju var samþykkt á fundi samninganefdar félagsins í lok apríl og var þá send til SGS sem punktar Einingar-Iðju inn í kröfugerð Sambandsins. Hún mun því líta dagsins ljós á þessari kjaramálaráðstefnu SGS en ekki á heimasíðu félagsins, bara svona ef félagsmenn eru að velta fyrir sér afhverju hún hefur ekki verið birt opinberlega. 

Þessi mál og fjölmörg önnur verða rædd þessa tvo daga á Hótel Örk. 

Umboðið hjá SGS
Á fundi samninganefndar Einingar-Iðju sem haldinn var í lok mars var samþykkt að veita SGS umboð til kjarasamningagerðar fyrir hönd félagsins vegna kjarasamninga á almenna vinnumarkaðnum, sem gilda til 1. nóvember 2022. Umboð var veitt annars vegar vegna aðalkjarasamnings á milli SGS og SA og hins vegar vegna kjarasamnings SGS við SA vegna veitinga-, gisti-, þjónustu-, og greiðasölustaða, afþreyingarfyrirtækja og hliðstæðrar starfsemi.