Jafnrétti í heilbrigðisþjónustu - málþing í streymi

Alþýðusamband Íslands, BSRB og Öryrkjabandalag Íslands boða til málþings um jafnrétti í heilbrigðisþjónustu; hætturnar við arðvæðingu og einkavæðingu í heilbrigðisrekstri og leiðir að bættu rekstrarumhverfi í þágu samfélagsins. Viðburðurinn verður á morgun, fimmtudaginn 12. september, og hefst kl. 14:00. Beint streymi verður af fundinum fyrir þau sem komast ekki á staðinn.

Málþingið er í tilefni útgáfu bókarinnar Jafnrétti í heilbrigðisþjónustu, sem er þýðing á riti Göran Dahlgren um málaflokkin, og hvernig reynslan hefur verið í Svíþjóð undanfarna áratugi. Bókina má nálgast í PDF-formi hér. 

Ásamt Göran Dahlgren mun Lisa Pelling fara yfir aðgerðir stéttafélaga og félagasamtaka til að taka á vandanum og Rúnar Vilhjálmsson fer yfir stöðuna eins og hún birtist á Íslandi samtímans.

Fundarstjóri er Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB 

  • 13:30 – Húsið opnar
  • 14:00 – Sonja Ýr Þorbergsdóttir (BSRB) - Upphafsorð
  • 14:10 – Göran Dahlgren - When the Swedish Health care system became a market – driving forces, effects and alternatives
  • 14:55 – Lisa Pelling - Trade union strategies and responses towards marketisation of health care services – perspectives from Sweden
  • 15:15 – Rúnar Vilhjálmsson - Reynslan frá Svíþjóð í íslensku samhengi

Göran Dahlgren er sænskur sérfræðingur í lýðheilsumálum og handhafi lýðheilsuverðlauna Norðurlandaráðs árið 2003. Síðan á níunda áratugnum hefur Göran verið áhrifamaður á alþjóðavettvangi á sviði heilbrigðis- og lýðheilsumála. Göran er fyrrum gestaprófessor við Háskólann í Liverpool og var yfirmaður heilbrigðissviðs sænska félagsmálaráðuneytisins og Lýðheilsuráðs sænsku lýðheilsustofnunarinnar, auk þess að hafa starfað á alþjóðavettvangi fyrir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO). Með útgáfu bókarinnar „Hjúkrunarmarkaður framtíðarinnar – hverjir vinna og hverjir tapa?“ spáði Göran fyrir um markaðsvæðingu heilbrigðiskerfisins sem raungerst hefur í Svíþjóð á síðustu 30 árum.

Lisa Pelling er sænskur stjórnmálafræðingur og yfirmaður hugveitunnar Arena Idé, sem styrkt er af verkalýðsfélögum. Lisa er með doktorsgráðu í stjórnmálafræði frá Háskólanum í Vínarborg. Lisa hefur reglulega lagt sitt af mörkum við framsækna dagblaðið Dagens Arena og Social Europe, auk þess að hafa starfað sem pólitískur ráðgjafi í sænska utanríkisráðuneytinu. Lisa var framkvæmdastjóri International Union of Socialist Youth á árunum 1997–2001 og er formaður stjórnar Rannsóknarstofnunar um fólksflutninga, þjóðerni og samfélag (REMESO) við Linköping háskóla.

Rúnar Vilhjálmsson er prófessor í félagsfræði við hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands. Rúnar er með doktorsgráðu í félagsfræði frá Wisconsinháskóla í Madison í Bandaríkjunum þar sem hann sérhæfði sig í félagsfræði með áherslu á heilsuvandamál og heilbrigðisþjónustu ásamt heilbrigðisfræði með áherslu á stjórnun heilbrigðisstofnana og faraldsfræði. Rúnar hefur árum saman rannsakað skipulag heilbrigðisþjónustu, afstöðu almennings til reksturs og fjármögnunar heilbrigðisþjónustunnar og aðgengi almennings að heilbrigðisþjónustunni.