Á upplýsingavef um lífeyrismál segir að Íslenska lífeyriskerfið sé í öðru sæti, á eftir Hollandi í alþjóðlegri lífeyrisvísitölu sem ráðgjafarfyrirtækið Mercer og samtökin CFA Institute standa að og birt var í gær.
Ísland tók í þriðja sinn þátt í vísitölunni þar sem gerður er samanburður á lífeyriskerfum 47 ríkja. Ísland fékk A einkunn ásamt Hollandi, Danmörku og Ísrael. Í skýrslu Mercer gefur A-einkunn til kynna "fyrsta flokks og öflugt lífeyriskerfi sem tryggir góð réttindi, er sjálfbært og sem traust ríkir um".
Niðurstöður vísitölunnar voru birtar 17. október og heildareinkunn íslenska lífeyriskerfisins er 83,5 stig. Góð heildarútkoma Íslands liggur í því að Ísland fær A einkunn í öllum þremur grunnþáttum en einu löndin sem fá A-einkunn fyrir alla þrjá grunnflokka vísitölunnar - sjálfbærni, nægjanleika og traust - eru Holland og Ísland.
Samanburður lífeyriskerfa í Mercer vísitölunni byggist annars vegar á talnaefni frá Efnahags- og framfarastofnunni – OECD og öðrum fjölþjóðastofnunum og gagnabönkum og hins vegar á upplýsingum sem sérfræðingar hjá Mercer og fleiri hafa aflað í viðkomandi ríkjum.