Íslandsmeistarinn Gunni Magg

Í jólablaði félagsins má finna eftirfarandi spjall við ritara stjórnar félagsins, Gunnar Magnússon.

Ritari í stjórn félagsins, Gunnar Magnússon, náði sér í annan titil í haust er hann var krýndur Íslandsmeistari í sjóstöng. Þetta var átjánda sumarið sem Gunni keppir í þessu sporti og segir að á þeim tíma hafi hann veitt á rúmlega 80 mótum, gist að heiman vegna þeirra meira en hálft ár og keyrt meira en 56.000 kílómetra. „Á þessum tíma hef ég veitt með nálægt 130 veiðimönnum, landað nærri 18.000 fiskum samtals tæplega 38 tonnum. Átta sinnum hef ég veitt meira en tonn á einu móti en það minnsta sem ég náði í borgar sig varla að segja frá, aðeins rétt tæplega 80 kíló.“ 

Gott korter
Spurður um upphafið á hans ferli í sjóstangveiði segir Gunni að hann hafi farið í þrjú ár sem aðstoðarmaður á slíku móti á Siglufirði og Dalvík. „Rúmri viku eftir Dalvíkurmótið 2004 fór ég með þremur félögum á sjó. Þar æfðum við okkur í gott korter, jafnvel 20 mínútur, og töldum okkur þar með vera tilbúna til að taka þátt í landsmóti í sjóstangveiði. Við höfum séð á mótum að það var fjöldi verðlauna í boði og það hlyti að vera möguleiki á að vinna til einhverra þeirra. Við ákváðum líka að taka þátt í að minnsta kosti þremur mótum saman sumarið eftir til að afla stiga til Íslandsmeistara sveita. Til að gera langa sögu stutta komumst við að því á okkar fyrsta móti að það var eitt af því fáa sem var ekki verðlaunað fyrir.“ 

Næstum því 18
Gunni segir að á þessum árum hafi hann veitt 17 fiskitegundir. „Ég náði reyndar þeirri átjándu í haust og ætlaði að færa hana upp á vírinn og leggja hana inn. Þetta var silungur, svona 4 til 5 pund, stórbæting á Íslandsmeti. Veiðifélagarnir sáu á því ýmis tormerki, væntanlega vegna þess að það var greinilega búið að veiða fiskinn áður þar sem búið var að taka af honum bæði flökin,“ segir Gunni og hlær og bætir við að sumarið í ár hafi verið hans albesta vertíð. „Ég er strax orðinn spenntur eftir næstu vertíð næsta sumar.“