Vinnuumhverfið hefur áhrif á starfsfólk frá toppi til táar. Horfa þarf á heildarmyndina og huga að þáttum sem hafa áhrif á andlega og líkamlega heilsu.
VIRK Starfsendurhæfingarsjóður og Vinnueftirlitið hafa tekið höndum saman og standa fyrir vitundarvakningu undir yfirskriftinni Höfuð herðar hné og tær um mikilvægi þess að byggja upp traust og heilbrigða vinnustaðamenningu sem leggur grunn að öryggi og vellíðan starfsfólks. Áherslan er ekki hvað síst á mikilvægi þess að tekið sé vel á móti ungu fólki inn á vinnumarkaðinn.
„Með samstarfi okkar viljum við hvetja atvinnurekendur og starfsfólk til að taka vel á móti unga fólkinu okkar sem er margt hvert að taka sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum þessa dagana þegar að skóla lýkur. Það er munur á því hvernig við upplifum vinnuumhverfið okkar og því mikilvægt að hlusta vel hvert á annað. Á það bæði við um unga og þá sem sem eldri eru. Þannig stuðlum við að öryggi og vellíðan allra, “ segir Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, forstjóri Vinnueftirlitsins.
Vefsíðan hhht.is er hryggjarstykki vitundarvakningarinnar. Á vefsíðunni má finna gagnlegar upplýsingar og góð ráð um það hvernig við byggjum upp traust, stuðlum að fjölbreytileika og inngildingu og eflum jákvæð samskipti í vinnunni.
„Það er mjög mikilvægt fyrir okkur sem samfélag að taka vel á móti nýju fólki inn á vinnumarkað. Að mörgu er að hyggja, upplýsingamiðlun, öflugt vinnuverndarstarf og forvarnir eru lykilatriði í því að gera fyrstu skrefin inn á vinnumarkaðinn eins örugg og hægt er og það er verðugt verkefni að vinna að því með Vinnueftirlitinu,“ segir Vigdís Jónsdóttir forstjóri VIRK.
Athygli er vakin á því að neðst á hhht.is má finna hlekk á veggpjald vitundarvakningarinnar til útprentunar og hlekk á veggfóður fyrir síma.