„Hugsið um félagið, það er ykkar bakhjarl“

Bjössi á skrifstofunni fyrir
Bjössi á skrifstofunni fyrir "örfáum árum."

Í síðasta jólablaði félagsins má m.a. finna eftirfarandi viðtal við fyrrum formann Einingar-Iðju, Björn Snæbjörnsson.

Björn Snæbjörnsson sem jafnan er kallaður Bjössi Snæ., fyrrverandi formaður félagsins, var búinn að sitja í embættinu í 31 ár er hann ákvað að stíga til hliðar fyrr á árinu. Stjórnarsetan var þó búin að vera lengri því árið 1981 tók Bjössi sæti í stjórn Einingar og varð starfsmaður félagsins ári síðar. Árið 1986 tók hann við embætti varaformanns og sex árum síðar var hann kjörinn formaður Einingar. Árið 1999 varð Eining-Iðja til með samruna Einingar og Iðju og varð hann þá fyrsti formaður Einingar -Iðju. Á aðalfundinum í vor var hann sæmdur gullmerki félagsins og jafnframt gerður að heiðursfélaga Einingar-Iðju eftir um 42 ára starf í þágu félagsins. Þann 31. október sl. var síðasti formlegi vinnudagur Bjössa hjá félaginu og var hann búinn að reikna út að starfsdagar hans fyrir félagið væru þar með orðnir 14.612.

Bjössi var einnig um tíma varaformaður Starfsgreinasambands Íslands (SGS) sem er fjölmennasta landssambandið innan ASÍ. Þaðan lá leiðin í stól formanns og sinnti hann því starfi í 12 ár eða allt til ársins 2022. Þá sat Bjössi jafnframt í miðstjórn ASÍ í rúm 30 ár, allt þar til í apríl á þessu ári. 

Í tilefni tímamótanna settist tíðindamaður blaðsins niður með Bjössa í smá spjall.

Í ræðu þinni á aðalfundinum í vor sagðir þú m.a. “Nú er starfstíma mínum að ljúka, ég er að fara í langa fríið.“ Því liggur beint við að spyrja, ertu kominn í frí?
Á aðalfundi Einingar-Iðju í vor var Bjössi sæmdur gullmerki félagsins og jafnframt gerður að heiðursfélaga Einingar-Iðju eftir um 42 ára starf í þágu félagsinsNei, ekki get ég nú alveg sagt það. Félagsmálin eru bara eitthvað sem ég brenn fyrir. Ég var kjörinn á ný eftir nokkurt hlé í stjórn Lífeyrissjóðsins Stapa á ársfundi sjóðsins fyrr á árinu. Ég er líka farinn að sinna kjaramálum aldraða sem hafa ekki fengið nógu mikinn hljómgrunn í gegnum tíðina. Ég ætla mér að nýta mína reynslu þar inni. Eining-Iðja bað mig einnig um að vera með í samningaviðræður um einn vinnustaðasamning sem er í vinnslu.

Sjálf verkefnin lítið breyst
Breytingarnar eru búnar að vera alveg ótrúlegar frá því ég byrjaði t.d. umhverfið sem við erum í, hvað varðar alla tækni; tölvur, fjarfundir og slíkt, en samt má segja að sjálf verkefnin hafi lítið breyst. Málin sem eru að koma inn á borð til okkar eru mjög svipuð, félagsmenn að fá of lítið greitt, veikindadagarnir, vitlaust orlof, ekki borguð yfirvinna og slíkt. Þetta er bara nákvæmlega það sama sem er í gangi núna og þegar ég var að byrja. Það eina sem mér finnst hafa breyst er að í dag eru til einstaklingar sem eru að svíkja fólk og það með ráðum gert. Kannski var einhver einn og einn þannig hér áður fyrr en þetta er mun algengara núna. Sérstaklega held ég að þetta hafi komið meira inn þegar erlenda verkafólkið fór að kom inn á vinnumarkaðinn í meira mæli og eins ef mikið var um ungt fólk á vinnustaðnum.

Við tókum eftir ákveðnum „menningarmun” þegar erlendu félagsfólki tók að fjölga. Það tók líka talsverðan tíma að sannfæra það um að stéttarfélagið væri í vinnu fyrir það og gegndi mikilvægu hlutverki varðandi kaup og kjör. Margir komu frá löndum þar sem viðmið eru önnur sem og hefðir og saga. Við lögðum mikla vinnu í að skapa traust og ég held að okkur hafi tekist ágætlega upp, t.d. með því að útbúa margvíslegt fræðsluefni á fjölmörgum tungumálum.     

Vinnustaðaeftirlit
Við erum alltaf að gæta réttinda félagsmanna og grípum inn í þegar þörf krefur. Mikil fjölgun erlends verkafólks stuðlaði að grundvallarbreytingu á allri starfsemi stéttarfélaga. Með tilkomu Vinnustaðaeftirlits er fulltrúum stéttarfélaga heimilt að sækja heim vinnustaði án þess að gera boð á undan sér, ekki samt til að halda fundi. Eftirlit hefur lengi verið einn grunnþáttur í starfsemi stéttarfélaga en mikilvægi þess jókst mjög með fjölgun erlends launafólks á íslenskum vinnumarkaði. Í þessu eftirliti leggjum við upp úr því að leiðbeina, að kynna atvinnurekendum og starfsfólki réttindi og skyldur. Við viljum stuðla að jákvæðu sambandi við atvinnurekendur og reynum það án þess að gefa nokkuð eftir þegar réttindi og kjör launafólks eru annars vegar. Langflest mál má leysa með símtölum. Í flestum tilvikum er um vankunnáttu atvinnurekenda að ræða þegar launafólk leitar til skrifstofunnar á Akureyri eða útibúanna á Dalvík og í Fjallabyggð.

Þú sérð bara um þetta
Það sem helst hefur breyst á öllum þessum tíma, fyrir utan tæknina, er að mér finnst félagsmenn vera duglegri að leita til félagsins. Sérstaklega unga fólkið. Félagsmenn eru líka margir hverjir meira vakandi um sín mál þó auðvitað mættu fleiri vera þannig. Ég er viss um að þarna á stóran þátt sú fræðsla sem starfsmenn félagsins hafa verið með í skólum á svæðinu, þ.e. grunnskólum, framhaldskólum og vinnuskólum, undanfara tvo áratugi eða rúmlega það.

Sú breyting hefur líka orðið að það var meiri samkennd í samfélaginu. Það var meiri félagsleg nálgun, fólk var meira meðvitað um sitt félag. Núna finnst mér sem sumir hugsa meira um hvar er hægt að fá betra orlofshús eða betri styrk heldur en hvort félagið sé að berjast fyrir betri kjörum eða betri réttindi. Það er svona ég vil vera þar sem hentar mér í dag hugsun. Áður fyrr var stéttarfélagið bakhjarlinn. Núna heyrir maður bara ég nenni ekki að standa í þessu og að trúnaðarmaðurinn eigi bara að sjá um þetta, mæta á fundi og segja svo öðrum vinnufélögunum hvernig staðan er eða hvað er um að vera. Félagsleg tengsl eru að mínu mati því miður bara minni í dag. Stór þáttur í því er sennilega að allir hafa meira við að vera. Þetta á ekki bara við um stéttarfélögin, öll félagsleg starfsemi eru á undanhaldi. Fólk virðist bara ekki hafa tíma til að sinna þessum hlutum.

Ég er samt viss um að við sem félag höfum sloppið nokkuð vel miðað við marga aðra. Við erum búin að vera dugleg við að vera sýnileg, t.d. með auglýsingum og með fræðslu eins og í skólum og slíkt. Haldið góð trúnaðarmannanámskeið til að uppfræða okkar trúnaðarmenn. Ég er viss um að við erum framarlega á landsvísu hvað þessa þætti varðar.

Hvað með sameiningar félaga?
Ég tel að allar sameiningar félaga hér við Eyjafjörðinn sem átt hafa sér stað allt frá því um 1970 hafi verið mjög gagnlegar og hafi stuðlað að því að við séum með svona öflugt félag eins og Eining-Iðja er í dag.

Í dag eru 18 félög innan Starfsgreinasambandsins og ég tel að þau ættu ekki að vera fleiri en 10. Ég myndi vilja sjá Eyjafjörðinn, jafnvel Norðurlandið allt sem eitt öflugt deildarskipt almennt félag. Tækifærið er núna, gætum jafnvel byrjað á að horfa í vestur á Samstöðu og Ölduna. Þessi þrjú félög eru þannig séð mjög lík. Svo seinna meir væri hægt að horfa í fleiri áttir því að mínu mati er framtíðin bara eitt félag á Norðurlandi. Það er slæmt að slíkt sé ekki komið í gagnið því við þurfum að vera mótvægi við stóru félögin í Reykjavík. Ég hef áhyggjur og tel að við á landsbyggðinni þurfum að vera á verði gagnvart mögulegri ásælni stórra félaga í Reykjavík. Við á landsbyggðinni þurfum að átta okkur á stöðunni. Stækkum við ekki og eflum okkur munu stóru félögin í Reykjavík breyta sér í landsfélög og gleypa minni félögin. Þá verða félögin úti á landi útibú frá höfuðstöðvunum í Reykjavík. Dettur einhverjum í hug að það sé betra fyrirkomulag? Sameining er nauðsynleg og félög munu neyðast til að sameinast áður en langt um líður. Félagsfólk mun ekki sætta sig við óbreytt ástand, það greiðir félagsgjaldið til að fá þjónustu, en smærri félög skortir oft sérhæfingu til að veita þá þjónustu og það er fólkið sem á félagið sitt.

Við kunnum þetta
Eining-Iðja hefur alla burði til að standa eitt, bæði hvað varðar stærð og fjárhag en við verðum samt að fara að skoða það að stækka. Það skiptir miklu máli hvernig það er gert. Hvernig staðið var að sameiningu Einingar og Iðju á sínum tíma og svo sameiningin við Vöku á Siglufirði sýnir að við kunnum þetta. Hjá Einingu-Iðju hafi allt varðandi sameiningu þessara félaga verið uppi á borðum og gengið frá öllum endum. Til dæmis með deildarskiptingu félagsins og með skrifstofum og þjónustu á Dalvík og í Fjallabyggð. Svo er það tæknin sem auðveldar öll samskipti á milli hvað verkefni varðar.

Ég tel og hef oft sagt að lágmarksstærð stéttarfélaga ætti að vera 1.000 til 1.500 manns. Félög af þeirri stærð geta rekið sjúkrasjóði og veitt félagsmönnum sínum góða þjónustu. Þróunin er víða í rétta átt - á Vestfjörðum og Austfjörðum hefur tekist vel við fækkun og stækkun og samlegðaráhrifin hafa ekki látið á sér standa.

Mín skilaboð til nýrrar forystu félagsins er að kanna þessi mál, ræða við önnur félög til að heyra möguleikann á þessu. Því stærra sem félag er því sterkara verður það.

Aðför að verkalýðshreyfingunni?
Staðan núna, er helsta verkefnið hreyfingarinnar að halda því sem við höfum náð?
Já, því miður er staðan sú að það er verið að sækja að okkur mjög víða. Það versta við það er að fólk er ekki endilega að átta sig á hlutunum, áttar sig ekki á því hvaðan allur rétturinn sem það hefur, hefur komið. Öllum finnst alveg sjálfsagt í dag að sá sem missir vinnuna fái atvinnuleysisbætur. Það tók á sínum tíma sex vikur í allsherjarverfalli að ná þeim rétti. Veikindarétturinn, orlofsrétturinn og allt þetta hefur alltaf komið í gegnum samninga stéttarfélaganna. Mönnum finnst það bara sjálfsagt að þetta er bara svona en það er verið að reyna að tvístra fólki. Það er verið að reyna að veikja stéttarfélögin t.d. eins og með frumvarpi þingmanna Sjálfstæðisflokksins um félagafrelsi á vinnumarkaði sem lagt var fram. Þar er verið að reyna að gera atvinnurekendur sterkari í ráðningarsamböndum við fólk. Hver á svo að hjálpa þeim sem vilja ekki vera í stéttarfélögum? Miðað við reynsluna þá þurfa alveg ótrúlega margir á hjálp að halda. Ef við pössum okkur ekki þá eigum við eftir að missa eitthvað af þeim réttindum sem við höfum í dag. Réttindum sem náðust með mikilli baráttu. Við verðum að passa okkur og vera vel á verði gagnvart þessum öflum. Hvar ætlar þú að leita þér hjálpar ef búið verður að rústa stéttarfélögunum?

Minna aðgengi
Aðgengi að vinnustöðum hefur tekið miklum breytingum frá því ég hóf störf. Áður fyrr var meira um það að við værum að fara inn á vinnustaði. Mun auðveldara var að komast þangað inn og hitta félagsmennina við vinnu. Reglur um aðgengi voru ekki jafn harðar og í dag. Það má segja að allir hafi getað gengið inn á skítugum skónum og talað við fólkið hvort sem um var að ræða frystihús, matvælafyrirtæki  eða bara hvað sem er. Nú lúta slíkir staðir aðgangsstýringum bæði vegna hreinlætis og öryggis sem er auðvitað mikil framför. Ég man að í eitt skiptið sem ég var að fara inn í frystihús ákvað ég að spyrja hvort ekki væri til fyrir mig sloppur eða hárnet. Þá var bara horft á mig með svona hvaða rugl er nú þetta svip.

Einu sinni í seinni tíð lenti ég í því að þurfa að klæða mig úr öllu áður en ég fékk að fara inn á vinnustaðafund. Fékk reyndar viðeigandi hlífðarfatnað því þá vorum við með fund inni á skurðstofu á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Þessi breyting er frábær en veldur því að erfiðara er að droppa inn í vinnustaðaheimsóknir. Hægt var að halda fund á vinnustað með skömmum fyrirvara en í dag þarf að ákveða slíkt langt fram í tímann og oft eru það okkar trúnaðarmenn sem skipuleggja þá í samstarfi við okkur og viðkomandi fyrirtæki.

Gat tekið heila viku
Taxtaútgáfa eða blaðaútgáfa þarna í upphafi var aðeins meira verk en í dag. Einingar-blaðið var prentað hjá okkur, raðað saman, heftað, merkt og sent í pósti til félagsmanna. Þetta ferli gat tekið heila viku fyrir allt starfsfólk skrifstofunnar. Það var lítið annað gert á meðan. Svo sem betur fer þróaðist þetta með nýrri tækni. Félagsmenn hafa nú mun betri aðgang að upplýsingum en áður, t.d. í gegnum vefinn okkar og samfélagsmiðla. Þeir gefa okkur miklu meiri möguleika á að koma hlutunum eða skilaboðum til félagsmanna. Nú sér einn starfsmaður um að koma þessum upplýsingum á netið á núll einni.

Almenn ánægja félagsfólks
Félagið hefur látið gera árlegakannanir sem leiða í ljós mikla ánægju félagsfólks með starfsemi félagsins. Hún mælst vel yfir 90%. Þetta er sá mælikvarði sem við tökum mark á og ég veit að félagið mun áfram vaxa og dafna eins og það hefur gert í gegnum árin.

Að lokum vil ég segja þetta við félagsmenn. Hugsið um félagið, það er ykkar bakhjarl sem hjálpar þegar á þarf að halda. Ekki láta glepjast af einhverjum frjálshyggjuhugmyndum um að allt sé betra ef allt er frjáls og að hver og einn eigi að semja fyrir sjálfan sig. Við erum öll misjöfn, sumir geta staðið í slíku og hafa gert það en aðrir þurfa á hjálp að halda.

Standið á ykkar, passið ykkur á að láta ekki eyðileggja félögin, það eru mín skilaboð til ykkar allra.