Hringferð Alþýðusambands Íslands

Góð mæting var á fundinn. Hér má sjá hluta fundarmanna hlýða á erindi frá Steinunni Bragadóttur, hag…
Góð mæting var á fundinn. Hér má sjá hluta fundarmanna hlýða á erindi frá Steinunni Bragadóttur, hagfræðingi hjá ASÍ.

46. þing Alþýðusambandsins verður haldið næsta vetur. Þessa dagana stendur yfir fyrri hringferð af tveimur um landið á vegum ASÍ, þar sem forseti og starfsfólk skrifstofu hittir fyrir félögin á fundum. Á fundunum núna er farið yfir þau málefni sem fastanefndir ASÍ hafa undirbúið sl. ár og miðstjórn hefur lagt til að fái sérstaklega umfjöllun í aðdraganda þingsins. Í gær fór fram fundur á Akureyri og urðu góðar umræður um málefnin en fundurinn var byggður upp á stuttum erindum og hópavinnu.

Málefnin sem tekin eru fyrir á þessum fundum eru viljandi höfð nokkuð opin og ættu að rúma vel helstu sjónarmið félagsfólks í umræðum. Segja má að um þrjá málaflokka sé að ræða:

  • Auðlindir í þágu þjóðar - varðstaða um sameignir þjóðarinnar
  • Þjónusta í þágu almennings - krafa um bætt aðgengi - horfið frá einkavæðingu
  • Samkeppni í þágu samfélags - sporna gegn fákeppni og einokun

Afrakstur fyrri hringferðar verður notaður til að búa til ályktanir og greinargerð með þeim, fyrir miðstjórn sem svo sendir út til félaganna í júnílok. Í seinni hringferðinni, sem áætluð er um mánaðarmót ágúst/september, verða ályktanir ræddar og tillögur að áherslum og aðgerðum af hálfu Alþýðusambandsins og aðildarfélaganna forgangsraðað.

Um 70 mættu á fundinn sem tókst mjög vel, þar af voru 34 skráðir frá Einingu-Iðju. Fundurinn í gær var fyrir ellefu félög sem eru á Norðurlandi eystra.