Hátíðarræðan frá hátíðarhöldum í tilefni af 1. maí.

Í gær fór fram hátíðardagskrá í Menningarhúsinu HOFi á Akureyri en þar flutti Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður RSÍ, aðalræðu dagsins á hátíðarhöldum í tilefni af 1. maí.

Kæru félagar,

Til hamingju með daginn! 1. maí er dagurinn okkar, alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins. Það er á þessum degi sem launafólk um allan heim kemur saman og krefst bættra kjara, sýnir samstöðu í verki og krefst betri réttinda.

Það er mér sannur heiður að fá að vera hér með ykkur í dag. Loksins getum við komið saman, gengið kröfugöngu og átt orðastað hvert við annað, eftir tveggja ára hlé, tímabil sem hefur einkennst af heimsfaraldri, þrengingum á vinnumarkaði, atvinnuleysi og tekjusamdrætti.

Það hefur verið sótt að launafólki á undanförnum misserum en með samstöðu hefur okkur tekist að standa vörð um störfin og réttindi launafólks. Okkur hefur einnig tekist að tryggja meira öryggi og heilsu fólksins í landinu við erfiðar aðstæður. Margir misstu vinnuna á þessu tímabili og við höfum barist fyrir því að tryggja framfærslu fólks, aðallega með því að tryggja að fólk héldi störfum sínum.

Þegar við stöndum frammi fyrir erfiðleikum eins og heimsfaraldri, þá reynir á réttindi og styrk verkalýðhreyfingarinnar. Þá reynir á að grundvallarréttindi verkafólks séu virt. Við höfum þurft að horfa upp á að atvinnurekendur grípi til hópuppsagna án raunverulegs tilefnis. Við höfum séð fyrirtæki sem reyna að koma sér hjá því að greiða laun í samræmi við kjarasamninga. Við höfum séð atvinnurekendur sem hafa sagt upp trúnaðarmönnum fyrir það eitt að sinna hlutverki sínu og skyldum.

Við eigum aldrei að samþykkja brot á lögum né samningsbundnum réttindum. Við eigum að spyrna við fótum!

Launafólk hefur lyft grettistaki við að bregðast við breyttum aðstæðum og hefur verið tilbúið til að þess að láta hlutina ganga upp. Við höfum látið þetta reddast. Fjölmargir hafa þurft að vinna í fjarvinnu á heimilum sínum. Aðrir vinna þannig störf að fjarvinna er ekki í boði og hafa því þurft að sinna vinnu sinni þar sem meiri smithætta hefur verið. Framlínustarfsfólk, þið eigið svo sannarlega heiður og hrós skilið fyrir ykkar framlag. Það á líka við um ykkur sem vinnið störfin sem ekki eru jafn sýnileg en eru ekki síður mikilvæg og halda samfélaginu gangandi.

En getur launafólk endalaust búið við þær aðstæður að láta þetta reddast?

Við þurfum að gera úrbætur á vinnumarkaði til lengri tíma. Fyrir rúmum þremur árum voru tæknibreytingar á vinnumarkaði mikið til umræðu. Líklega hugsuðum við flest að þessar breytingar kæmu eftir mörg ár.

Núna sjáum við hins vegar að við höfum tekið risa stökk í innleiðingu tækninnar. Yfirleitt eru breytingarnar jákvæðar en það dylst engum að við þurfum að vera undir þessar breytingar búin. Hvernig hagnýtum við okkur þessar breytingar til að gera störfin betri og verðmætari? Fólk þarf atvinnu og tekjur til þess að hafa í sig og á.

Sveitarfélögin þurfa útsvarið, ríkið þarf tekjuskattinn, verslanir þurfa greiðandi viðskiptavini.

Já, við viljum mannsæmandi laun fyrir okkar störf enda eruð það þið sem haldið hjólum samfélagsins gangandi. Það eruð þið sem skapið verðmæti landsins. Það eruð þið sem eigið að njóta þeirra ríku auðlinda sem við búum að. Það eruð þið sem eigið að fá arðinn af tækniþróun starfanna.

Atvinnuástand er orðið miklu betra. Víða vantar starfsfólk til vinnu og framundan eru gríðarleg tækifæri fyrir íslenska þjóð. Við búum við miklar auðlindir sem samfélagið allt á að njóta góðs af.

En erum við öll að njóta þeirra? Nei það hefur ekki verið rétt skipt.

Hvernig eru kjör almenns launafólks, öryrkja eða eftirlaunafólks?

Staða þeirra sem hafa lokið störfum á vinnumarkaði eða hafa misst starfsgetuna og endað í örorku er almennt ekki ásættanleg. Skerðingar hins opinbera á þeim ævisparnaði sem við leggjum fyrir eru algjörlega óásættanlegar. Ríkið verður að sjá sóma sinn í því að leyfa fólki að njóta lífeyris án skerðinga.

Þessu óréttlæti verður að linna!

Afar brýnt er að rýna þróun lífeyrisgreiðslna sem og örorkulífeyris og bera saman við launaþróun í landinu á undanförnum árum. Þar er gjá að myndast sem verður að brúa og það strax.

Kæru félagar,

Við sjáum fjölmargar áskoranir framundan.

Verðbólgan vex. Vöruverð hækkar verulega vegna ytri aðstæðna sem launafólk hefur ekki áhrif á. Eldsneyti hefur hækkað mikið. Fasteignaverð hefur rokið upp og húsnæðiskostnaður aukist. Við þessar aðstæður verður ríkið að grípa inn í og verja heimilin í landinu.

Það er rúmur áratugur liðinn frá Hruninu. Ég hef rætt við fjölda fólks sem gekk í gegnum gríðarlega erfiða tíma. Í samtölum mínum við fólk á undanförnum árum þá hef ég fengið að heyra fjölmargar hræðilegar reynslusögur. Gríðarlegur fjöldi lenti í greiðsluerfiðleikum. Lánin hækkuðu um margar milljónir á einu ári. Margir misstu aleiguna á báli verðbólgunnar. Öfgakennd viðbrögð Seðlabankans á þeim tíma voru meðal annars þau að hækka stýrivexti í tíma og ótíma.

Þegar verðbólga var mikil þá hefur svarið ætíð verið að hækka stýrivexti. Síðan kemur það sömu aðilum á óvart að verðbólga hélt áfram að hækka. Hvert var svarið við því? Jú hækkum vextina á fólkið!

Því miður þá búum við þetta ástand enn í dag. Verðbólga er há meðal annars vegna innfluttra aðfanga. Við búum jafnframt við mikinn skort á íbúðarhúsnæði. Þessi skortur hefur orðið til þess að fasteignaverð hefur hækkað gríðarlega. Ég heyri sögur af því að fjársterkir einstaklingar hafa tekið stöðu á fasteignamarkaði, fjárfesti frekar í íbúðum heldur en hlutabréfum og í einhverjum tilvikum fara íbúðir ekki á markaðinn aftur, hvorki til sölu né leigu. Stöðutakan veldur því að fasteignaverð hækkar.

Fasteignakostnaður er að sliga fjölmörg heimili og það er ljóst að stjórnvöld verða að bregðast við með beinum stuðningi til fólksins. Nú þegar verðbólga er farin að aukast aftur þá skapar það enn og aftur gríðarlega erfiða stöðu fyrir venjulegt fólk hér á landi.

En rifjum aftur upp, hver eru viðbrögð Seðlabankans við aukinni verðbólgu? Jú það skal hækka stýrivexti þrátt fyrir að augljóst sé að þeir bíta ekki á þær verðlagshækkanir sem komnar eru fram.

Hækkun stýrivaxta gerir stöðu launafólks enn erfiðari, útgjöld aukast enn frekar og það er ljóst að til þess að bregðast við þeirri stöðu þá þarf að hækka laun enn meira til þess að mæta auknum útgjöldum. Það er nefnilega þannig að heimilisbókhaldið er tiltölulega einfalt, það þarf að koma meira inn á launareikninginn en fer út af honum. Dugi tekjurnar ekki þá þarf að auka þær.

En hvað þýða hærri vextir?

Hærri vextir skila meiri fjármunum til fjármagnseigenda. Fjármagnseigendur þurfa almennt ekki að óttast aukna verðbólgu því þeir eru mun betur varðir fyrir hárri verðbólgu, njóta jafnvel góðs af henni. Þessir fjármunir eru teknir af heimilum landsins. Við þurfum að verja heimilin fyrir þessu!

Kæru félagar

Nú vil ég snúa mér að sölu Íslandsbanka. Þarna var banki í eigu íslenska ríkisins. Í eigu þjóðarinnar. Banki sem skilaði miklum hagnaði. Ríkisstjórnin taldi brýnt að selja eignina og hefur nú í tvígang selt eignarhluti. Í seinna skiptið var valið að hafa söluna í lokuðu ferli til útvaldra. Er óeðlilegt að spyrja sig, af hverju þurfti að handvelja einstaklinga til að kaupa? Af hverju var farið í lokað útboð þar sem útvaldir gátu keypt í bankanum og grætt milljónir eða tugmilljónir á afsláttarkjörum! Var eignin svo slæm söluvara að það þurfti að veita afsláttarkjör? Af hverju fengu markaðsaðstæður ekki að ráða verðinu? Framboð og eftirspurn?

Íslandsbanki græddi 23,7 milljarða á síðasta ári. Á næstu 12-24 mánuðum stefnir stjórn bankans á að skila 52 milljörðum til hluthafa sinna. Takið eftir bara á næstu tveimur árum, 52 milljarðar.

Af hverju var svona brýnt að selja eignarhlutana, var það erfiður rekstur? Eða þurfti að dreifa hagnaðinum á rétta aðila?

Af hverju var svona brýnt að selja hluta úr eign okkar sem skilaði arði til samfélagsins?

Hafi verið vilji til þess að fá inn öfluga fjárfesta þá vildu lífeyrissjóðir okkar launafólks fjárfesta meira í bankanum en það stóð ekki til boða. 200 minni fjárfestar fengu að kaupa hlut enda augljóst að innleysa mætti hagnað fljótt. Af hverju fá fáir einstaklingar að græða á okkur? Finnst okkur það sanngjarnt? Í mínum huga er svarið skýrt, NEI!

Kæru félagar,

Framundan eru kjaraviðræður á íslenskum vinnumarkaði. Við megum búast við því að þessar viðræður muni reyna mjög á okkur öll. Sjaldan hafa ytri aðstæður haft jafn mikil áhrif á stöðuna hjá okkur. Eins og ég kom inn á áðan þá vekur staðan á fasteignamarkaðinum miklar áhyggjur. Fasteignamarkaðurinn hefur orðið fyrir barðinu á fjármálabraski þar sem á endanum launafólk, öryrkjar og ellilífeyrisþegar þurfa að borga brúsann. Hækkandi fasteignaverð flytur fjármagnið frá fólkinu til fjárfestanna sem “græða á daginn og grilla á kvöldin.”

Fólk sem komið er á eftirlaun og þarf að minnka við sig húsnæði til þess að losa um fjármagn hefur úr afar fáum kostum að velja og þarf iðulega að kaupa nýtt húsnæði dýrum dómi.

Kjaraviðræðurnar munu snúast um að verja þann kaupmátt sem okkur hefur tekist að sækja á undanförnum árum.

Það mun reyna mjög á samstöðuna hjá okkur þegar kemur að því að verja kjörin. Við ætlum okkur að ná árangri til þess að bæta stöðu launafólks. Einkunnarorð 1. maí eru “Við vinnum” og það er vegna þess að við ætlum að vinna! Við ætlum að halda áfram að bæta kjör og réttindi fólksins í landinu.

Aðkoma stjórnvalda að lausn í tengslum við kjarasamninga verður sérstaklega mikilvæg enda eru fjölmargir þættir sem þarf að laga í stuðningi stjórnvalda við launafólk.

Það þarf að verja heimili landsins fyrir verðbólgunni.

Það þarf að styðja við barnafjölskyldur með ríkulegri barnabótum.

Það þarf að styðja við íbúðareigendur og leigjendur með greiðslu vaxtabóta og ríkulegri leigubótum.

Stjórnvöld verða að beita tilfærslu kerfunum til þess að styðja við heimili landsins.

Það þarf að styrkja menntakerfið enn frekar enda verða áskoranir komandi ára miklar. Tækniþróun er á fullri siglingu og fólk þarf að hafa valkosti að mennta sig til nýrra starfa.

Ég sakna þess mjög að samfélagið hafi ekki mótað sér skýra stefnu í framtíð menntamála, hvert við viljum stefna og hvar megináherslur eigi að liggja. Það er vöntun á iðn- og tæknimenntuðu fólki hér á landi. Á sama tíma og við höfum lagt áherslu á fjölgun í þessum hópi og fólk vill sækja í námið þá er menntakerfið ekki tilbúið að taka á móti þeim.

Síðasta haust var mörg hundruð manns vísað frá, sem sóttu um að komast í nám í iðn- og tæknigreinum, og fengu þar með ekki námspláss í framhaldsskólum. Á sama tíma er talað um að auka aðgengi að iðn- og tækninámi. Við höfum ekki séð nein raunveruleg úrræði til þess að bregðast við þessari afleitu stöðu.

Að öðru sem mér finnst jafnframt vera mikilvægt að nefna hér í dag. Í vikunni kom fram á Alþingi að þrettán ríkisfyrirtæki greiða tæpar 200 milljónir í félagsgjöld til aðildarsamtaka sem gæta hagsmuna atvinnurekenda. Það er svo að VIÐ erum að greiða hátt í 200 milljónir meðal annars til þess að reka Samtök atvinnulífsins, Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök fjármálafyrirtækja, ásamt fleiri samtökum. Þessi sömu samtök standa síðan í bullandi hagsmunabaráttu innan stjórnkerfisins, stutt með fjármunum frá okkur! Þar eru hagsmunir launafólks ekki í forgrunni.

81 milljón rann beint til Samtaka atvinnulífsins. 81 milljón!

Finnst okkur þetta eðlilegt? Að við séum að greiða hagsmunasamtökum fyrirtækjanna þessa fjármuni til þess að standa í hagsmunabaráttu innan stjórnkerfisins, oftar en ekki gegn okkar hagsmunum.

Tæpar 200 milljónir!

En kæru félagar,

Við getum ekki komið saman hér í dag án þess að minnast á þær hörmungar sem eru að gerast í Úkraínu. Innrás Rússa inn í landið, þar sem óbreyttur almenningur hefur verið tekinn af lífi. Við sjáum fréttir þar sem hryllilegir stríðsglæpir eru opinberaðir. Það er ömurlegt að upplifa það núna, árið 2022, að það sé raunveruleg hætta á því að kjarnorkuvopnum verði beitt með þeim hörmungum sem slíku fylgir.

Við sem samfélag þurfum að standa þétt saman og styðja við flóttafólk frá stríðsátaka svæðum. Við þurfum að auðvelda fólki að aðlagast samfélaginu okkar með jákvæðum hætti, við kunnum svo sannarlega að sýna góða gestrisni. RSÍ hefur boðið fram íbúðir til að styðja við þennan hóp og við munum leggja okkar lóð á vogarskálina í þessum efnum líkt og mörg önnur verkalýðsfélög hafa eflaust gert.

Ég held í vonina að þessum stríðsátökum ljúki fljótt en eyðileggingin er nú þegar gríðarleg. Manntjónið er óbærilegt. Við þurfum að taka höndum saman í þessari baráttu með þjóð sem ráðist er á.

Að lokum kæru félagar,

Framundan eru tímar þar sem samstaða okkar mun skipta sköpum. Verkalýðshreyfingin öll þarf að taka höndum saman í baráttunni sem framundan er og þar er félagsfólk í öllum félögum mikilvægast til þess að ná fram bættum kjörum. Þegar við stöndum saman þá vinnum við. Ég veit að samstillt verkalýðshreyfing getur náð meiri raunverulegum árangri saman heldur en sundruð hreyfing. Skammtímasigrar geta litið vel út en sigrarnir verða að endast til áratuga, bætt launakjör þurfa að sitja í vasa okkar, betri réttindi lifa áfram.

Við vinnum saman. Við náum bestum árangri þegar samheldnin og samstaða er til staðar.

Ég óska ykkur gleðilegs baráttudags launafólks.

Takk fyrir mig.