Í gær, 1. maí, fór fram hátíðardagskrá í Menningarhúsinu HOFi á Akureyri. Þar flutti Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, hátíðarræðu dagsins.
Sagði Þórarinn að saga stéttabaráttu og saga verkalýðshreyfingarinnar hafi kennt okkur að afl launafólks fyrr og nú hefur verið kveikjan og orkan sem knúið hefur fram breytingar á þjóðskipulaginu, öllum almenningi til heilla. Þá sagði hann að grundvöllur velferðarríkis náist með því að tryggja efnahagslegt réttlæti fyrir alla.
„Í baráttu launafólks hefur megininntakið alltaf verið hið sama; með samstöðu og réttlæti að leiðarljósi, náum við að tryggja réttlæti fyrir allt samfélagið, en ekki bara fyrir suma. Með því að standa saman gegn kröfu auðvaldsins um einka eignarétt á okkar sameiginlegu auðlindum, þá tryggjum við jöfnuð fyrir allt samfélagið, en ekki bara fyrir suma. Þegar talað er um að tryggja efnahagslegt réttlæti allra, þá má ekki gleyma þeim 35% heimila hjá fólki í sambúð með börn og þeim 62% einstæðra foreldra hér á Íslandi, sem eiga í erfiðleikum með að ná endum saman milli mánaðarmóta. Með því að tryggja efnahagslegt réttlæti fyrir alla – líka fyrir þessar fjölskyldur – þá náum við að skapa velferð fyrir alla, en ekki bara fyrir suma.“
Lesa má ræðu Þórarins Eyfjörð, formanns Sameykis, hér