Greitt úr Félagsmannasjóði

Um helgina var greitt úr Félagsmannasjóði til starfsmanna sveitarfélaga á félagssvæði Einingar-Iðju. Auk starfsmanna sveitarfélaga fengu einnig starfsmenn Heilsuverndar, Hólmasólar, Fjölsmiðjunar og Hamra, útilífsmiðstöðvar skátar greitt úr sjóðnum.

Alls fengu 1.771 félagsmenn Einingar-Iðju greiddar rúmar 140,5 milljónir króna úr sjóðnum að þessu sinni. 

Af hverju fæ ég ekki borgað úr sjóðnum?
Forsenda þess að hægt sé að greiða úr sjóðnum er að Eining-Iðja hafi bankaupplýsingar þeirra sem eiga rétt á að fá greiðslu úr sjóðnum. Því miður vantar slíkar upplýsingar hjá 112 félagsmönnum eða þá að þær eru rangt skráðar og á því eftir að greiða tæpar 3,5 milljónir úr sjóðnum. Hæsta einstaka upphæðin eru tæpar 197.000 krónur þannig að ef þú ert að vinna á þessum vinnustöðum en fékkst ekki greiðslu frá félaginu þá hvetjum við þig til að fara inn á Mínar síður félagsins og skrá inn þessar upplýsingar sem og síma og netfang. 

Skráðu þig inn á Mínar síður félagsins, með rafrænum skilríkjum, þar getur þú kannað hvort við séum með réttar upplýsingar um þig og lagfært ef þörf krefur. Ef þú kemst ekki inn á síðuna eða hefur einhverjar spurningar í sambandi við Félagsmannasjóðinn þá máttu endilega senda tölvupóst á rosfrid@ein.is

Á næstunni verður aftur greitt úr sjóðnum til þeirra sem skila inn umbeðnum upplýsingum.

Félagsmenn innan Starfsgreinasambandsins, þar á meðal Einingar-Iðju, sem starfa hjá sveitarfélögum fengu í samræmi við kjarasamninga frá árinu 2019 greitt 1,5% af launum sínum í Félagsmannasjóð. Í gildandi kjarasamningi aðildarfélaga SGS við sveitarfélögin var samið um að hækka Félagsmannasjóðinn um 0,7% frá 1. apríl 2024 og fór hann því úr 1,5% í 2,2%. Auk sveitarfélaga greiða í sjóðinn Hólmasól, Fjölsmiðjan og Hamrar, útilífsmiðstöð skáta. Heilsuvernd greiddi 1,5% í sjóðinn á síðasta ári en það ákvæði var tekið út í nýjum samningi við þá.

Hér má finna ýmsar leiðbeiningar fyrir Mínar síður félagsins, m.a. hvernig á að breyta upplýsingum á persónublaðinu