Greiða á ræstingarauka um næstu mánaðamót – Mikilvægt að fara vel yfir launaseðla

Mynd fengin af vef SGS
Mynd fengin af vef SGS

Í kjarasamningi SGS og SA, sem undirritaður var í mars síðastliðnum, var samið um svokallaðan ræstingarauka fyrir starfsfólk í ræstingum. Þetta þýðir að ræstingarfólk sem starfar á almenna markaðinum fær sérstaka viðbótargreiðslu með launum fyrir ágúst sem greidd verða út um næstu mánaðamót.  

Félagsmenn Einingar-Iðju sem starfa við ræstingar á almenna markaðinum eru því hvattir til að fylgjast vel með launaseðlum sínum við næstu útgreiðslu launa og tryggja að sú uppbót hafi skilað sér. 

Ræstingaraukinn skal greiddur út mánaðarlega og reiknast hann í hlutfalli við starfshlutfall, en fyrir fullt starf er hann 19.500 kr. á mánuði. Hafa ber í huga að ræstingaraukinn er ekki hluti af grunnlaunum og myndar þar af leiðandi ekki stofn fyrir yfirvinnu og aðrar álagsgreiðslur. Í reiknivél SGS geta félagsmenn séð hvernig ræstingaraukinn sem og aðrar kjarasamningsbundar hækkanir í kjarasamningi SGS og SA koma til með að líta út miðað við sínar forsendur.

Sem fyrr segir á að greiða sérstaka ræstingaraukann út í fyrsta skipti um næstu mánaðamót. Mun upphæðin birtast sem sérstök lína á launaseðli og ætti því að vera auðvelt fyrir félagsmenn að sannreyna að þeir hafi fengið hann greiddan þegar laun fyrir ágústmánuð verða greidd út.

Félagsmenn sem starfa við ræstingar á almennum vinnumarkaði eru hvattir til að skoða launaseðla sína vel um næstu mánaðarmót og ganga úr skugga um að greiðslan hafi skilað sér.

Gildandi kjarasamningur á Almenna markaðinum, breytingar á 22. kafla um vinnu við ræstingarstörf byrjar á bls 11.

_____ 

Hér fyrir neðan má sjá umfjöllun um breytingar varðandi ræstingar er nýi samningurinn á almenna markaðinum var kynntur

Leiðrétting á kjörum ræstingafólks
Í samningnum náðist mikilsverður árangur í því að bæta kjör ræstingafólks. Um var að ræða sameiginlegt sameiginlegt baráttumál SGS og Eflingar sem Samiðn studdi jafnframt dyggilega. 

Til viðbótar við aðrar umsamdar hækkanir samningsins mun ræstingafólk sem starfar undir 22. kafla aðalkjarasamningsins hækka úr launaflokki 6 í launaflokk 8. Það þýðir að í lok samningstíma munu grunnlaun ræstingafólks hafa hækkað um allt að 6 þúsund krónur umfram aðrar launahækkanir, og skilar sú viðbótarhækkun sér inn í vakta- og yfirvinnuálög. 

Þá kemur til viðbótar sérstakur ræstingaauki að upphæð 19.500 kr. á mánuði miðað við fulla vinnu. Ræstingaaukinn bætist við laun frá og með ágústlaunum 2024, og verður sér lína á launaseðli sem hækkar ekki vakta- eða yfirvinnuálög.  

Mánaðarlaun ræstingastarfsmanns með 5 ára starfsreynslu í fullu starfi munu í september 2024 hafa hækkað um að minnsta kosti 49.866 krónur. 

Einnig kemur inn ný grein sem skýrir skilgreininguna á tímamældri ákvæðisvinnu, en brögð hafa verið að því að launafólk fái ekki greitt 20% álag sem fylgja á slíkri vinnu. Nýja greinin styrkir stöðu ræstingafólks til að sækja rétt sinn gagnvart fyrirtæki. 

Þá voru heimildir til vinnustaðaeftirlits útvíkkaðar til ræstingafyrirtækja.