Vinnufundur um Betri vinnutíma í vaktavinnu á opinbera markaðinum

Fjölmargir mættu á fundinn í gær. Mynd fengin af vef BSRB.
Fjölmargir mættu á fundinn í gær. Mynd fengin af vef BSRB.

Tæplega 240 fulltrúar launafólks og launagreiðenda komu saman í Reykjavík í gær á vinnufundi um Betri vinnutíma í vaktavinnu á opinbera markaðinum til að bera saman bækur, greina hvaða lærdóm má draga af vinnutímabreytingunum og ræða hvar helstu áskoranir og tækifæri liggja. Þar á meðal voru fjórir fulltrúar frá Einingu-Iðju; Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, Arnór Sigmarsson, Lögfræðingur og þjónustufulltrúi hjá félaginu, Guðbjörg Helga Andrésdóttir, formaður Opinberu deildar félagsins og trúnaðarmaður á þjónustukjarna hjá Akureyrarbæ og Auður Íris Eiríksdóttir trúnaðarmaður hjá Heilsuvernd-Hlíð.

Dagskráin hófst með ávarpi Aðalsteins Leifssonar ríkissáttasemjara. Þá fór verkefnastjórn Betri vinnutíma yfir vinnutímabreytingarnar, innleiðingu og eftirfylgni og Kolbeinn Guðmundsson, formaður matshóps, kynnti niðurstöður þeirra mælinga sem farið hafa fram til þess að meta áhrif verkefnisins.

Á meðal dagskrárliða voru reynslusögur af innleiðingu styttingar vinnuvikunnar frá fimm mismunandi aðilum, Gyða Hrönn Einarsdóttir frá Landsspítala Háskólasjúkrahúsi, Gunnar Örn Jónsson frá Lögreglunni á Vesturlandi, Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar og varaformaður BSRB, Ólafur Stefánsson hjá Slökkviliði Akureyrar og Jakobína Hólmfríður Árnadóttir frá Hrafnistu.

Aðalvinna fundarins fór fram í hópavinnu og borðumræðum þar sem rætt var um einstaka þætti vinnutímabreytinganna, hvaða lærdóm mætti draga af ferlinu, hvað hafi gengið vel og hvað ekki og hvert virðið væri fyrir starfsfólk, vinnustaði og samfélagið. Samið var um vinnutímabreytingar í vaktavinnu í fylgiskjali með kjarasamningum veturinn 2019-2020. Breytingarnar, sem ásamt styttingu vinnuvikunnar í dagvinnu, eru þær mestu sem orðið hafa á íslenskum vinnumarkaði í áratugi. Það sem einkennir vaktavinnuverkefnið er víðtækt samstarf og samvinna þvert yfir allan opinbera vinnumarkaðinn, bæði við kjarasamningsborðið og í allri innleiðingu og eftirfylgni. Í samningunum var einnig samið um að fyrir lok samningstímans myndu aðilar leggja sameiginlegt mat á verkefnið og hvort gera þyrfti einhverjar breytingar á kjarasamningsákvæðum varðandi vaktavinnu inn í framtíðina. Vinnustofan var mikilvægur liður í þessu mati.

Á næstu vikum verða niðurstöður vinnustofunnar teknar saman og í framhaldinu mun stýrihópur verkefnisins, þar sem sitja fulltrúar allra heildarsamtaka launafólks, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og allir opinberir launagreiðendur, taka niðurstöður til umfjöllunar.

Fljótlega eftir áramót kemur út skýrsla um verkefnið sem mun nýtast í komandi kjarasamningaviðræðum við ríki og sveitarfélög þar sem þarf að semja endanlega um vinnutímabreytingar. 

Á heimasíðunni betrivinnutimi.is má finna ýmsar fréttir og fróðleik um styttingu vinnuvikunnar hjá starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga.