Nýlega var ákveðið að kalla saman alla trúnaðarmenn félagsins, í nokkrum hópum, til að fara yfir ýmis mál. Nú er búið að halda tíu fundi og segir Tryggvi Jóhannsson, varaformaður félagsins, að þeir hafi allir tekist mjög vel. "Það er alltaf gott að hitta trúnaðarmennina okkar sem eins og við segjum oft eru okkar mikilvægasta fólk, tengingin okkar inn á vinnustaðina, og heyra hvað þeir hafa um málin að segja. Ýmislegt var rætt á þessum fundum m.a. um þeirra starf og tenginu við félagið, trúnaðarmannanámskeiðin, tímasetningar funda og félagið sjálft. Þarna vorum við að hittast í fámennum hópum sem skilaði því að allir tóku þátt í umræðunni og komu með mikilvæga punkta sem við munum vinna með áfram," sagði Tryggvi.
Auðvitað er það svo að ekki geta allir mætt á þeim tíma sem viðkomandi trúnaðarmaður var boðaður á og því var ákveðið að bjóða upp á tvo til þrjá fundi í viðbót í byrjun nóvember.
Í lok funda fá trúnaðarmennirnir afenta smá gjöf frá félaginu.