Fyrr í vikunni fór fram fyrsti fundur aðalstjórnar félagsins á starfsárinu. Að þessu sinni fór hann fram á Dalvík og var Katrínu Sigurjónsdóttur, sveitarstjóra Dalvíkurbyggðar, boðið á fundinn þar sem hún fór aðeins yfir stöðuna í sveitarfélaginu.
Í upphafi fundar var farið í skoðunarferð um nýtt fiskiðjuver Samherja á Dalvík. Þar tóku fimm starfsmenn Samherja á móti hópnum og sýndi stjórnarmönnum félagsins nýja húsið sem stefnt er á að taka í notkun um miðjan ágúst. Þetta voru þau Gestur Geirsson, yfirmaður landvinnslu Samherja, Anna María Kristinsdóttir, starfsmannastjóri Samherja, Jóhann Gunnar Sævarsson, öryggisstjóri Samherja, Sigurður Jörgen Óskarsson vinnslustjóri Samherja á Dalvík og Birkir Baldvinsson sem starfar við viðskiptaþróun hjá Samherja.
Fiskiðjuverið mun leysa af hólmi eldra hús þar sem Samherji hefur verið með fiskvinnslu til fjölda ára. Hið nýja fiskiðjuver verður í allra fremstu röð fiskiðjuvera í heiminum fyrir hvítfisk. Tæknin er allsráðandi og sjálfvirknin og er íslenskt hugvit áberandi.
Stjórnin var sammála um að húsið væri vel hannað og glæsilegt í alla staði, bæði hvað varðar vinnslusali og starfsmannaaðstöðu og óskar Samherja og starfsmönnum þeirra til hamingju með nýju aðstöðuna.