Fyrsta skólakynning vetrarins

Í gær fór fram fyrsta skólakynning vetrarins sem að þessu sinni var rafræn. Rut Pétursdóttir, þjónustufulltrúi hjá félaginu, kynnti þá fyrir 8 bekkjum í einu í VMA réttindi og skyldur á vinnumarkaði. Í næstu viku byrjar félagið með fræðslu í öllum 10. bekkjum á Eyjafjarðarsvæðinu og í lok apríl fer fram fræðsla í MA. Í þessum kynningum er m.a. farið yfir gildi þess að vera í stéttarfélögum og eins er farið yfir almenn réttindi og skyldur á vinnumarkaði. Undirtektir unglinganna eru oftast nær mjög góðar og skapast oft góðar umræður um þessi mál.

Undanfarin 23 ár hefur félagið farið í alla 10. bekki á Eyjafjarðarsvæðinu með fræðslu sem þessa og einnig mjög oft í MA og VMA. Starfsmenn félagsins hafa tekið eftir hvað unga fólkið er orðið virkara hvað þessi mál snertir nú en áður. Það veit betur hvar það á að spyrjast fyrir um réttindi sín og eins vita þau mun betur en áður hverju þau eiga rétt á. Þegar ungmenni fara út á vinnumarkaðinn þá skiptir miklu máli að þekkja og vita um réttindi sín og þessar kynningar eru hluti af því.