Fundir með trúnaðarmönnum hjá sveitarfélögum og ríki

Hér má sjá nokkra trúnaðarmenn Einingar-Iðju sem starfa á leikskólum á fundi í síðustu viku.
Hér má sjá nokkra trúnaðarmenn Einingar-Iðju sem starfa á leikskólum á fundi í síðustu viku.

Eining-Iðja skipulagði sex fundi með trúnaðarmönnum félagsins sem starfa hjá ríki og sveitarfélögunum. Um var að ræða undirbúningsfundi fyrir komandi kjaraviðræður en samningar við ríki eru lausir 31. mars 2023 og við sveitarfélögin 30. september 2023. Í síðustu viku voru haldnir fimm fundir, með trúnaðarmönnum sem starfa hjá ríkinu, í leikskólum, í grunnskólum, á þjónustukjörnum og sambýlum og í heimaþjónustu.  Síðasti fundurinn fór fram fyrr í dag, en þá komu saman trúnaðarmenn sem starfa hjá Heilsuvernd. 

Í byrjun fundanna voru starfsmenn félagsins með trúnaðarmönnunum og fóru aðeins yfir vinnuna sem framundan var og að því loknu unnu trúnaðarmennirnir saman í hóp. Þar var ýmislegt rætt er varðar samningana og komandi kjaraviðræður. Þarna urðu góðar umræður og komu margir góðir punktar fram hjá þeim, bæði varðandi breytingar eða útfærslur á einhverju sem nú þegar eru í samningum og hvað ætti að koma þar nýtt inn að þeirra mati.

Í lok fundanna tók einn starfsmaður félagsins við vinnugögnunum, setti þau saman í punkta og sendi á hvern hóp fyrir sig til nánari skoðunar og yfirferðar. Í framhaldinu verður kröfugerðir félagsins fyrir þessa hópa settar saman.