Starfsgreinasambandið hefur gengið frá samkomulagi við samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga um frestun niðurfellingar orlofsdaga skv. grein 4.3.1 í gildandi kjarasamningi. Í samkomulaginu felst að í þeim tilfellum sem starfsfólki hefur ekki verið gert kleift að taka uppsafnað orlof samkvæmt skýringartexta við greinina verði þeim aðstæðum mætt af hálfu vinnuveitenda með gerð skriflegs samkomulags við viðkomandi starfsfólk um hvernig töku uppsafnaðs orlofs verði lokið. Gerð samkomulags skal lokið eigi síðar en 15. apríl 2023.
Náist slíkt samkomulag ekki, skal vinnuveitandi tilkynna starfsmanni eigi síðar en 1. maí 2023 hvernig orlofstöku skuli háttað þannig að tryggt verði að starfsmaður nái að ljúka töku uppsafnaðs orlofs.
Grein 4.3.1
Í skýringarákvæðinu með gr. 4.3.1 í gildandi kjarasamningnum er starfsfólki sem átti gjaldfallið orlof þann 1. maí 2020, allt að 60 dögum, gefinn frestur til ljúka töku orlofsins fram til 30. apríl 2023, en að öðrum kosti falli það niður. Grein 4.3.1 hljóðar svo:
4.3.1 Orlofsárið er frá 1. maí til 30. apríl. Töku áunnins orlofs skal alltaf lokið fyrir lok orlofsársins, sjá þó gr. 4.6.1 og 4.6.2.