Innanlandsferð félagsins þetta árið var dagsferð sem farin var í gær út í Grímsey. Fjölmargir félagsmenn og fjölskyldumeðlimir þeirra sigldu út í Grímey, nutu eyjarinnar í um fjóra tíma og sigldu svo í land á ný.
Farið var með rútu frá Akureyri til Dalvíkur kl. 8:00 þar sem Sæfari fór með hópinn til Grímseyjar. Stoppað var í 4 tíma og síðan siglt til baka til Dalvíkur þar sem rútan beið og skilar ferðalöngum til Akureyrar á ný.
Í gær var lokadagur Sumarsólstöðuhátíðar sem staðið hafði yfir í eyjunni í nokkra daga og því var m.a. markaður á bryggjunni sem sumir úr hópnum nýttu sér. Þá var einnig leiðsögumaður til staðar sem fór með hópinn um eyjuna á strætisvagni. Einnig var gengið um eyjuna og hún könnuð. Þetta var frábært tækifæri fyrir félagsmenn og fjölskyldur þeirra að fara og skoða nyrsta hluta Akureyrar og njóta alls þess sem þessi náttúruperla hefur upp á að bjóða.