Fyrr í dag heyrði tíðindamaður síðunnar í Birni Snæbjörnssyni, fyrrum formanni Einingar-Iðju, en hann er núna fararstjóri í ferð félagsins til Færeyja. Ferðin hófst miðvikudaginn 18. september sl. þegar ekið var til Seyðisfjarðar til að fara um borð í Norrænu en komið var til Færeyja um kl. 16 daginn eftir.
Björn sagðist vera að stíga um borð í Norrænu á ný, en lagt var af stað heim til Íslands kl. 12:00 í dag. Hann sagði að ferðin hefði tekist mjög vel. Hópurinn var mjög heppinn með veður og sagði Björn að þau hefðu farið víða um eyjarnar í skoðunarferðir og að leiðsögumaður ferðarinnar, hún Maigun Solmunde, hefði staðið sig alveg frábærlega.