Fjölsmiðjan á Akureyri 15 ára

Fjölsmiðjan á Akureyri, sem er til húsa í Furuvöllum 13, varð 15 ára sl. sumar og hefur starfsemin e…
Fjölsmiðjan á Akureyri, sem er til húsa í Furuvöllum 13, varð 15 ára sl. sumar og hefur starfsemin eflst og dafnað vel frá upphafi. Yfir 400 ungmenni hafa fengið þar vinnu á meðan þau eru að skoða aðra náms- og starfsmöguleika. Nú starfa þar daglega 20 til 25 einstaklingar undir stjórn fjögurra verkstjóra.

Fjölsmiðjan á Akureyri var stofnuð 9. júlí 2007 og hófst starfsemi við endurbætur á húsnæði við Óseyri 1a í september sama ár. 8. mars 2008 var húsnæðið formlega opnað eftir endurbætur, en vorið 2014 flutti Fjölsmiðjan í stærra húsnæði við Furuvelli 13 og er þar enn til húsa. Stofnaðilar Fjölsmiðjunnar voru Rauði krossinn, Akureyrarbær, Vinnumálastofnun, Eining-Iðja og FVSA.

Fjölsmiðjan á Akureyri varð því 15 ára sl. sumar og hefur starfsemin eflst og dafnað vel frá upphafi. Yfir 400 ungmenni hafa fengið þar vinnu á meðan þau eru að skoða aðra náms- og starfsmöguleika. Nú starfa þar daglega 20 til 25 einstaklingar undir stjórn fjögurra verkstjóra. 

Fjórir verkþættir í boði
Erlingur Kristjánsson er forstöðumaður Fjölsmiðjunnar og segir að vinnan þar sé fjölbreytt og tengist fjórum verkþáttum sem í boði eru, þ.e. nytjamarkaði, bílaþvottastöð, mötuneyti og rafeindamarkaði. „Nytjamarkaðurinn er mjög vinsæll hjá bæjarbúum og nærsveitungum. Almenningur er mjög duglegur að kaupa vörur og gefa hluti sem þeir þurfa að losna við. Það er alltaf hægt að hringja og gefa okkur húsgögn og húsbúnað og við komum og sækjum hlutina. Fjölsmiðjubíllinn er á ferðinni alla daga að sækja vörur og senda aðrar. Í byrjun nóvember settum við fram jólaskrautið okkar og þar kennir ýmissa grasa,“ segir Erlingur.

Þá segir hann að bílaþvottastöðin gangi vel og að fullt sé að gera flesta daga. „Í tíðarfari eins og hefur verið undanfarið getum við ekki annað eftirspurn og í aðdraganda jólanna komast að færri en vilja. Mötuneytið er fyrir starfsfólkið okkar og einnig getur almenningur komið og borðað í hádeginu venjulegan heimilismat þar sem aðeins er einn réttur í boði í hvert sinn. Mötuneytið okkar er ekki stórt en ákveðnir fastagestir mæta í mat sem seldur er á hóflegu verði. Ef um stærri hópa er að ræða þarf að panta fyrirfram,“ segir Erlingur og bætir við að nýlega var opnað rafeindaverkstæði í Fjölsmiðjunni, „þannig að almenningur getur komið með síma, tölvur eða önnur smærri raftæki í viðgerð. Einnig er þar áfram unnið að endurvinnslu á tölvum eins og við höfum gert frá upphafi. Við tökum þær í sundur og flokkum í ákveðna flokka til endurvinnslu. Því hvetjum við fólk til að koma með tölvuna til okkar þegar á að endurnýja og skiptir engu hvort tækin eru í lagi eða ólagi, jafnvel ónýt.” 

Allir velkomnir í heimsókn
Ungmennin sem vinna í Fjölsmiðjunni fá greidd laun samkvæmt kjarasamningum við Einingu-Iðju og njóta lögbundinna réttinda þar. „Framtíð Fjölsmiðjunnar virðist björt sem eitt af þeim úrræðum sem ungmennum standa til boða eftir að grunnskóla lýkur. Til að fá vinnu í Fjölsmiðjunni er mögulegt að ræða beint við starfsfólkið á staðnum, tala við Vinnumálastofnun, eða Félagsþjónustu Akureyrarbæjar,“ segir Erlingur og bætir við að Akureyringar og nærsveitungar séu alltaf velkomnir í heimsókn, „hvort sem það er til að skoða aðstöðuna, líta á nytjamarkaðinn eða koma í hádegismat.“ 

Fjölsmiðjan er til húsa í Furuvöllum 13 og er síminn 414 9380. Upplýsingar um Fjölsmiðjuna má finna á heimasíðunni fjolsmidjan.com eða Facebook síðu Fjölsmiðjunnar