Árið 2007 sendu fimm stéttarfélög í Eyjafirði, þar á meðal Einingu-Iðju, bréf til atvinnurekenda á félagssvæðinu og samantekt sem unnin var af Pacta lögmannaþjónustu að beiðni stéttarfélaganna þar sem fjallað er um lagaskyldu launagreiðenda til að halda eftir af launum starfsmanna iðgjöldum þeirra til viðkomandi stéttarfélags og skyldu launagreiðenda til að standa stéttarfélögum skil á þessum iðgjöldum. Enn fremur er fjallað um lagaskyldu launagreiðenda til greiðslu sjúkrasjóðsgjalda og orlofssjóðsgjalda vegna starfsmanna sinna og sem launagreiðendum ber skylda til að greiða til stéttarfélaganna á viðkomandi starfssvæði.
Í bréfinu segir m.a. að tilefni þessarar samantektar er sú að á því hefur borið að launagreiðendur og þeir sem reikna út laun starfsmanna eru ekki nægjanlega upplýstir um hvaða lög og reglur gilda um greiðslu þessara gjalda. Langflestum er þó kunnugt um þessar reglur og standa skil á gjöldunum til samræmis við það og eru með sín mál á hreinu hvað það varðar. Svo sem skýrlega kemur fram í samantektinni kveða lög og réttarheimildir skýrt á um skyldu launagreiðenda til að greiða þessi gjöld til stéttarfélaganna.
Í samantektinni kemur t.d. fram að kjarasamningur gildir ekki aðeins um félagsmenn viðkomandi stéttarfélags heldur gildir hann um alla sem starfa a félagssvæði viðkomandi stéttarfélags og bæði atvinnurekendur og starfsmenn á félagssvæði viðkomandi stéttarfélags eru bundnir af honum.