Í maí 2019 sendi ASÍ kvörtun til ESA vegna meints brots íslenska ríkisins á skuldbindingum sínum skv. EES-samningnum, nánar tiltekið tilskipun um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma sem orðið hafði til þess að launafólk tapaði málum fyrir íslenskum dómstólum sem réttilega hefðu átt að vinnast. Niðurstaða ESA frá 7.12 s.l. er skýr og íslenska ríkið brotlegt.
Ófullnægjandi innleiðing
Kært var vegna ófullnægjandi innleiðingar tilskipunarinnar og m.a. byggt á því að lög nr. 46/1980 geymi engin ákvæði sem felli á atvinnurekendur skyldu til þess að hafa formlegt, virkt og aðgengilegt kerfi til eftirlits með vinnutíma starfsmanna sinna. Vegna skorts á skýrum reglum hafi dómstólar ítrekað hafnað kröfum launamanna um uppgjör frítökuréttar og vikulegra frídaga, á þeirri forsendu að þeir hafi ekki haldið kröfum sínum fram í tíma þ.e. reglum um tómlæti er ítrekað beitt. Af sömu ástæðum hafi dómstólar hafnað kröfum launamanna vegna þess að þeim hafi sjálfum borið að gæta að vinnutíma sínum og atvinnurekendur verið sýknaðir af þeirri ástæðu einni að hafa fært ábyrgð á stjórn vinnutíma og frítöku á starfsmann sinn. Jafnframt hafi dómstólar hert sérstaklega á kröfum hér að lútandi þegar í hlut eiga trúnaðarmenn stéttarfélaga.
Til stuðnings kvörtuninni var sérstaklega vísað til dóms Hæstaréttar nr. 31/2018 þar sem rétturinn byggði á því að um hafi verið að ræða 13 mánaða tímabil þar sem 15 mánuðir liðu frá lokum þess og þar til kvartað var og að aldrei hafi verið kvartað fyrr en eftir starfslok. Einnig var vísað til dóms Hæstiréttar í málinu nr. 304/2010. Loks var vísað til dóma í héraðsdómi Vesturlands þar sem kröfur vegna frítökuréttar á hvalvertíðum 2014 og 2015 voru taldar niður fallnar vegna tómlætis. Litið var svo á í þessum dómum að skylda til þess að rjúfa „tómlæti“ hvíli á hverjum og einum starfsmanni þegar vitað var i þessu tilviki að stéttarfélag starfsmannanna hafði kvartað vegna þeirra allra og rekið sérstakt prófmál vegna nákvæmlega sama ágreinings við atvinnurekandann og sem vannst með dómi Hæstaréttar nr. 594/2017. Loks var vísað til dóms Landsréttar nr. 815/2018 en sú niðurstaða var í samræmi við eldri dóma og sýndi að réttarframkvæmd hér á landi breyttist ekki í kjölfar samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
Skýr niðurstaða
Niðurstaða ESA var skýr. Þar sem íslenska ríkið hefur ekki tryggt að atvinnurekendur setji upp tímaskráningarkerfi sem haldi m.a. utan frítökurétt og hvildartíma starfsmanna er Ísland brotlegt við EES samninginn. Þessi niðurstaða felur það í sér að sönnunarbyrði um uppsafnaðan frítökurétt á að falla á atvinnurekendur sem bera ótvíræða skyldu til þess að sjá svo um að starfsmenn njóti þeirra réttinda sem hvíldartímaákvæði laga og kjarasamninga séu virt. Það þarf því mun meira til þess að fella slíkan rétt niður vegna tómlætis eða ófullnægjandi skráningar á vinnutíma eins og íslenskir dómstólar hafa gert hingað til.