Málþing um innflytendur og íslensku á vegum Akureyrarakademíunnar fór fram í Hofi sl. laugardag. Markmið málþingsins var að hefja samtalið um það sem verið er að gera hér í bænum til að auka færni innflytjenda í íslensku og gera þeim kleift að taka virkan þátt í samfélaginu. Tveir starfsmenn félagsins voru á meðal þátttakenda. Björn formaður félagsins var einn af frummælendum við erindið Hvað er verið að gera í fræðslukerfinu og hjá aðilum vinnumarkaðarins hér á Akureyri til að auka færni innflytjenda í íslensku? Magdalena Þórarinsdóttir, afgreiðslufulltrúi félagsins á Akureyri og samfélagstúlkur, tók þátt í pallborðsumræðum þar sem fjallað var um hver væri reynsla innflytenda.
Erindið sem Björn flutti má lesa í heild hér fyrir neðan
Fundarstjóri og ágætu málþingsgestir.
Ég vil byrja á því að þakka AkureyrarAkademíunni fyrir að standa að málþingi um íslensku kennslu fyrir erlent fólk sem kemur til landsins bæði sem innflytjendur og einnig það fólk sem hingað kemur til að vinna um skemmri eða lengri tíma.
Það hefur verið okkur hjá stéttarfélögunum mikill þyrnir í augum hvað lítið er gert til að halda því að þessu fólki að læra íslensku og ekki síst að gefa þeim þann möguleika að sækja íslenskunámskeið.
Oft finnst manni að það sé heldur dregið úr fólki að fara á námskeiðin heldur en ekki. Einnig hjálpum við Íslendingarnir ekki mikið til við þetta þar sem við skiptum fljótt yfir í enskuna í samræðum við þau og drögum því úr þeim hvatann að fara á íslensku námskeið.
Fyrir mörgum árum síðan sömdu almennu stéttarfélögin í samningum um að gera átak í því að fólk hefði meiri möguleika á að sækja sér nám og námskeið. Samið var um við atvinnurekendur að greiða ákveðna % í sjóði sem fólk getur sótt í fyrir námsstyrkjum.
Á almenna markaðnum heitir sjóðurinn Landsmennt, fyrir starfsmenn sveitarfélaga er það Sveitamennt og fyrir þá sem vinna hjá ríkinu er það Ríkismennt.
Félagsmenn sem hafa annað móðurmál en íslensku geta sótt um allt að 90% styrk í þessa sjóði vegna íslenskunáms eftir aðeins eins mánaðar félagsaðild. Þetta er gert til að auðvelda okkar félagsmönnum að fara á námskeiðin án þess að fjárhagsvandi letji þau til námsins. Stéttafélagið styrkir alla félagsmenn til náms eða námskeiða, en félagsmaður þarf að hafa greitt til félagsins í 6 mánuði til að fá styrk fyrir almennu námi/námskeiðum. Íslensku námskeið er eina námskeiðið sem félagsmaður hefur fullan rétt á endurgreiðslu eftir aðeins mánuð í félaginu.
Í góðu samstarfi við SÍMEY hefur Eining-Iðja gert samning um að greiða það sem uppá vantar eftir styrkinn. Námið er því félagsmönnum að kostnaðarlausu. Í raun borgar félagið allt og sækir fyrir hönd sinna félagsmanna í sjóðina.
Tiltekið fyrirkomulag hefur verið í boði í nokkur ár en þess ber að geta að aðeins þeir sem greiða félagsgjald í Einingu-Iðju eiga rétt hjá áðurnefndum styrkjum. Önnur stéttarfélög hafa samið um þetta með svipuðum hætti, til dæmis eru verslunarmenn og sjómenn með þetta mjög líkt. Það er því ljóst að vilji stéttafélaganna til að koma sérstaklega til móts við erlenda félagsmenn varðandi íslensku kennslu er mikill.
Rétt um 200 félagsmenn hafa fengið styrk vegna íslenskunáms á síðustu þremur árum. Félagsmenn í Einingu-Iðju sem hafa annað móðurmál en íslensku eru í kringum 1.000 talsins eða um 15% af okkar félagsmönnum. Sá fjöldi hefur staðið í stað síðustu ár og eru flestir þeirra með fasta búsetu á landinu og hafa stofnað heimili á félagssvæðinu, sem er Eyjafjarðarsvæðið allt.
Við höfum reynt að gera allt sem á okkar valdi er til að hvetja félagsmenn af erlendum uppruna til að fara í íslenskunám. Við gefum út auglýsingar um íslensku nám á fleiri en einu tungumáli og við bendum þeim félagsmönnum sem leita til okkar á þennan möguleika. Einnig erum við í samstarfi við SÍMEY þar sem Eining Iðja heldur fræðslu fyrir erlenda félagsmenn um réttindi og skyldur þeirra á vinnumarkaði, ásamt því að upplýsa hópinn um möguleikann á, og kosti þess, að sitja íslensku námskeið á vegum Símeyjar.
Það er engin launung á því að ég hef oft heyrt frá okkar félagsmönnum að þau hafi ekki krafta til að sitja kvöldnámskeið eftir 8-10 tíma vinnudag og þá sé einbeitingin ef til vill ekki upp á marga fiska.
Það er nokkuð ljóst að auðvelda þarf fólki að sækja íslensku námskeið á vinnutíma. Það þarf að fá stjórnvöld og atvinnurekendur með í átak sem miðar að því að atvinnurekandi veiti starfsmönnum leyfi frá vinnu til að fara á námskeið. Stjórnvöld þurfa svo að taka þátt með því að endurgreiða atvinnurekanda þau laun og þann kostnað sem verður vegna þeirra sem fara í íslenskunám á vinnutíma.
Íslensku kunnátta einstaklingsins verður ekki aðeins honum sjálfum til hagsbóta heldur samfélaginu öllu. Viðkomandi kemst fljótar inn í samfélagið, aðlagast betur umhverfinu og möguleikar fyrir viðkomandi verða mun fleiri. Hvort sem það er á vinnumarkaði eða annars staðar í þjóðfélaginu.
Það á og verður að vera okkar krafa að stjórnvöld og atvinnurekendur aðstoði við það að auðvelda fólki aðgengi að íslensku námi.
Við hjá Eining Iðju höfum gegnum árin reynt að leggja mikla áherslu á að ná til allra félagsmanna. Það getur verið erfitt að ná til þeirra sem ekki skilja íslensku og því höfum við gegnum árin reynt að auglýsa okkur á íslensku, ensku og pólsku. Greinar í félagsblaði okkar hafa verið á öðrum tungumálum en íslensku til að ná til sem flestra.
Við höfum einnig gefið út bækling sem nefnist „Veistu hvað við getum gert fyrir þig?“ á 11 tungumálum, nú síðast á úkraínsku. Þessir bæklingar hafa farið víða, við dreifum þeim þegar við erum með fræðslu á vinnustöðum, til þeirra sem til okkar leita á skrifstofu félagsins og einnig þegar við förum út í vinnustaðaeftirlit.
Í þessum bækling er hlutverk stéttafélagsins útskýrt, einnig fjallað stuttlega um sjúkrasjóðinn, orlofssjóðinn og fræðslusjóðinn þ.e. þá styrki sem félagsmaður á rétt á hjá félaginu. Hlutverk trúnaðarmanna er útskýrt og einnig eru upplýsingar um þá kjarasamninga sem félagið stendur að.
Þetta hefur skilað okkur þeim árangi að erlendir félagsmenn leita til okkar meira en áður, sem er ánægjulegt.
Einnig er vert að nefna að ráðinn var starfsmaður í afgreiðslu félagsins á skrifstofunni á Akureyri sem er pólsk, en hefur verið búsett á Íslandi síðustu 15 árin. Eftir þessa ráðningu hafa pólskir félagsmenn leitað í mun meiri mæli til okkar. Stór hluti erlendra félagsmanna eru Pólverjar og því er mikilvægt að við bætum upplýsingaflæði til þeirra. Starfmaðurinn hefur getað frætt sína samlanda um kosti þess að læra íslensku og sækja námskeiðin.
Félagið hefur lagt áherslu á að sjá til þess að á vinnustaðafundum sé til staðar túlkur þegar á þarf að halda, erum þá með eins marga og þurfa þykir. Ekki er óalgengt að túlkað sé á allt að þremur tungumálum. Slíkt hið sama er einnig gert á mörgum öðrum fundum og á skrifstofum félagsins ef á þarf að halda. Heimasíða félagsins er einnig útbúin á þá vegu að hver og einn getur þýtt síðuna yfir á sitt tungumál gegnum google translate.
Stéttafélögin halda úti vinnustaðaeftirliti sem fer á vinnustaði og kemur upplýsingum til fólks um réttindi þeirra og skyldur. Þessar heimsóknir hafa hjálpað mjög mörgum, sérstaklega útlendu fólki sem hingað er komið til að vinna tímabundið, til dæmis yfir sumarið, og hefur ekki áhuga á að læra íslensku.
Það eru þó nokkrir atvinnurekendur sem vilja alls ekki að þeirra fólk læri íslensku því þeir vilja halda þeim sem mest í fjötrum vinnustaðarins. Þeir ganga jafnvel svo langt að vara þau við verkalýðsfélaginu því að það muni senda þau úr landi ef við vitum af þeim. Þessir aðilar hafa ekki hagsmuni fólksins í fyrirrúmi heldur er það spurning hvernig hægt er að svíkja það um laun og allt annað sem hægt er að svíkja fólk um. Vinnustaðaeftirlitið kemur upplýsingum til leiðar sem leiðir til þess að fólk kemur til okkar og það eru stórar upphæðir á hverju ári sem við náum að hjálpa fólki að fá leiðrétt, oftar en ekki með aðstoð lögfræðinga.
En staðreynd málsins er þó sú, að þó margt sé gert til að auðvelda upplýsingaflæði til fólks af erlendum uppruna, þá þarf að gera átak í málefnum fólks með annað móðurmál en íslensku og gera þau hæfari til að aðlagast okkar þjóðfélagi og okkar menningu. Það gerum við best með því að auðvelda þeim leiðina að því að læra íslensku.
Takk fyrir.
Nokkrar myndir frá málþinginu á Facebook síðu AkureyrarAkademíunar