– Ekki láta þrýsta þér út í réttindamissi –
Það eru því miður nokkur dæmi um að félagsmenn hafi komið á skrifstofur Einingar-Iðju eftir að hafa sagt upp störfum í veikindum. Það getur þýtt mikla réttindaskerðingu hjá viðkomandi. Dæmi eru um að fólk sem hefur verið veikt í nokkurn tíma hefur verið kallað til yfirmanna og þrýst á það að segja upp störfum. Eining-Iðja beinir því til félagsmanna sinna að láta alls ekki undan slíkum þrýstingi heldur hafa strax samband við félagið.
Það hefur þrengt að ýmsum stofnunum og fyrirtækjum á síðustu árum og yfirmenn því oft í erfiðri stöðu með reksturinn. Þó er óafsakanlegt í slíkum tilvikum að hafa réttindi af launafólki með því að þrýsta á þá sem lenda í lengri veikindum að segja upp störfum. Það er engin lausn og getur í mörgum tilvikum aukið á vanda þessa fólks frekar en hitt. Þess vegna er svo mikilvægt að fá ráðgjöf hjá Einingu-Iðju áður en skrifað er upp á starfslok.