Breytingar á húsnæðisstuðningi tóku gildi á áramótum

Á vef ASÍ segir að um áramótin tóku gildi breytingar á húsnæðisstuðningi sem boðaðar voru í yfirlýsingu ríkisstjórnar í tengslum við kjarasamninga. Breytingarnar felast einkum í hækkun eignaskerðingarmarka vaxtabótakerfisins og hækkun grunnfjárhæða húsnæðisbóta. 

Eignaskerðingamörk vaxtabóta hækkuð um 50% 
Alþýðusambandið hefur áður bent á hvernig vaxtabótakerfið hefur verið markvisst veikt undanfarinn áratug. Þetta hefur gerst með frystingu fjárhæða kerfisins sem að mestu hafa verið óbreyttar frá árinu 2010. Vaxtabætur ráðast á endanum af samspili af vaxtabótum og svo þeim vaxtagjöldum sem telja má fram ásamt stöðu eigna og skulda.  

Öðru fremur hefur eignaskerðing veikt kerfið. Fyrir núverandi breytingu hófst eignaskerðing hjá sambúðarfólki þegar eigið fé var orðið 8 milljónir. Upphæðin hafði ekki tekið breytingum í fjögur ár þrátt fyrir mikla hækkun eignaverðs. Afleiðingar þess að frysta eignaskerðingamörkin eru þær að vaxtabætur byrja að skerðast við það sem flokka má sem eðlilegt eigið fé í húsnæði, þ.e. 20%. Miðað við meðalíbúð í Kópavogi voru vaxtabætur sambúðarfólks 2022 um 40% skertar við 25% eigið fé og nærri fullu skertar við 30% eigið fé.  Svo hraðar skerðingar geta haft veruleg íþyngjandi áhrif á þá sem hafa keypt húsnæði á síðustu árum og verða fyrir hækkun vaxta og skerðingu vaxtabóta á sama tíma.  

Með 50% hækkun eignaskerðingarmarka byrja vaxtabætur að skerðast við 12 milljónir hjá sambúðarfólki og 7,5 milljónir hjá einstaklingum, þær eru að fullu skertar við 12 milljónir í eigið fé hjá einstaklingum og 19 milljónir í eigið fé hjá sambúðarfólki. 

Sjá nánar á vef ASÍ