Vinnueftirlitið - Beitum okkur rétt við vinnu

Í tilefni af alþjóðadegi vinnuverndar 28. apríl vekur Vinnueftirlitið athygli á mikilvægi þess að starfsfólk gæti að góðri líkamsbeitingu við vinnu. Gildir það um hvaða störf sem er en að þessu sinni er sjónum beint að starfsfólki sem starfar við mannvirkjagerð og hefur stofnunin gefið út þrjú ný plaköt því tengt. Eitt fjallar almennt um góða líkamsbeitingu við vinnu í mannvirkjagerð, annað um einhæfa álagsvinnu og þriðja um það að lyfta þungu.

Á heimasiðu Vinnueftirlitsins segir að vinna í mannvirkjagerð geti falið í sér líkamlegt álag og þegar ekki er farið rétt að getur það haft neikvæð áhrif síðar á ævinni. Öll viljum við komast hjá því að þurfa að líta í baksýnisspegilinn ef þrálátir stoðkerfisverkir láta á sér kræla svo sem verkir í baki, öxlum, hálsi og hnjám. Þess vegna skiptir rétt líkamsbeiting svo miklu máli og má ekki gleymast í erli hversdagsins.