Góð þátttaka í 1. maí hátíðarhöldum

Fjölmenni safnaðist saman  á Akureyri í dag til að taka þátt í kröfugöngu sem stéttarfélögin á Akureyri stóðu fyrir í tilefni af 1. maí, á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks. Einnig var góð mæting í kaffiveislu á skrifstofu stéttarfélaganna í Fjallabyggð. 

Kjörorð dagsins eru "RÉTTLÆTI, JÖFNUÐUR, VELFERÐ." Gengið var frá Alþýðuhúsinu, við undirleik Lúðrasveitar Akureyrar, gegnum miðbæinn að Ráðhústorgi og svo niður í Menningarhúsið HOF, þar sem fram fór hátíðardagskrá í tilefni dagsins. Kristín Konráðsdóttir, félagi í Sameyki, flutti ávarp 1. maí nefndar stéttarfélaganna við Eyjafjörð og Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, flutti hátíðarræðu dagsins. Auk þess var boðið upp á skemmtiatriði. Bryndís Ásmundsdóttir stýrði dagskránni og söng nokkur vel valin lög og félagar í Leikfélagi Menntaskólans á Akureyri mættu á svæðið og tók tvö skemmtileg dans og söngatriði úr söngleiknum Footloose sem þau settu nýlega á svið.  Í lok dagskrár tóku þau svo undir með Bryndísi og þéttsetnum sal af fólki þegar Maístjarnan var sungin. Að dagskrá lokinni var boðið upp á glæsilegt kaffihlaðaborð í Menningarhúsinu HOFI. 

Ávarp 1. maínefndar stéttarfélaganna við Eyjafjörð 2023

Ágæta samkoma. Til hamingju á baráttudegi launafólks fyrsta maí. Fyrir hönd stéttarfélaganna við Eyjafjörð býð ég ykkur velkomin.

Það sem fyrst kemur upp í hugann þegar minnst er á 1. maí er barátta og samstaða. Við vitum öll að að samstaðan er launafólki mikilvæg. Án samstöðu og baráttu nytum við ekki þeirra réttinda sem flestum þykja sjálfsögð í dag. Sú barátta hefur skilað sér m.a. í kosningarétti til sveitarstjórna og Alþingis, löggjöf um vinnuvernd, almannatryggingar, orlof og fæðingarorlof og lífeyrissjóði. Einnig má nefna bætt laun, styttri vinnutíma, matar- og kaffitíma, veikindarétt, sjúkrasjóð, sumarfrí og fleira. Þessi réttindi náðust einvörðungu fram með baráttu verkalýðshreyfingarinnar. Með samstöðunni hefur verkalýðshreyfingin barist með oddi og egg fyrir þessum réttindum í gegnum tíðina, og oft með miklum átökum. En þó að ýmislegt hafi áunnist þá verðum við að passa okkur á að sofna ekki á verðinum þegar að okkur er sótt. Það þarf sterk bein til að verja áunnin réttindi.

Slagorð dagsins eru Réttlæti – Jöfnuður – Velferð 

Það má öllum vera ljóst að ekki njóta allir íbúar þessa lands þess sem felst í þessum orðum. Því miður er það svo að það stefnir allt í það að á Íslandi búi tvær þjóðir. Þeir sem í valdi auðs og eigna geta leyft sér nánast allt, og svo hinir sem hafa varla til hnífs og skeiðar. Slíkt er óviðunandi í samfélagi sem vill kenna sig við velferð. Staðan á Íslandi er ekki góð, og eins og við vitum logar verðbólgubál og vextir eru himinháir. Eitt er þó víst, að nóg er til skiptanna á Íslandi, látum engan segja okkur neitt annað! Afkoma fyrirtækja er gríðarlega góð og það er ekkert eðlilegt við það hversu arðgreiðslur fyrirtækja eru gígantískar þessi misserin en viljinn virðist ekki vera mikill til að berja niður verðbólgudrauginn á meðan þau hagnast á þeim draugagangi. En við, launafólkið og allur almenningur þarf að bera byrðarnar og greiða niður verðbólguna með hærra vöruverði og dýrari þjónustu á meðan auðstéttin græðir á ástandinu.

Við þurfum réttlátari skiptingu á auðlindum landsins til fólksins og velferð allra landsmanna verður að vera forgangsmál núna strax því við verðum að passa upp á að allir sitji við sama borð og hér verði ekki til auðstétt sem ekkert tillit tekur til almennings.

Húsnæðismál í landinu eru í algerum ólestri, húsnæðisverð hefur margfaldast á örfáum árum og ungu fólki gert ókleift að komast inn á húsnæðismarkaðinn.

Launamunur kynjanna er alls ekki á þeim stað sem vildum sjá. Það sýnir best nýlegt dæmi sem ég held að við könnumst öll við. Hækkandi vöruverð er ógn við við launþega landsins, ekki síst þá sem lítið hafa á milli handanna. Auðvaldsöflin berjast fyrir því að einkavæða ríkisrekstur, svo sem skóla, heilbrigðiskerfi og banka. Við þurfum að standa vörð um velferðarríkið því auðvaldið gerir það ekki.

Heilbrigðiskerfið okkar er að þrotum komið og það er einungis að þakka því frábæra starfsfólki sem þar starfar að það er ekki lagst á hliðina á meðan ríkisstjórnin situr hjá og fjársveltir heilbrigðisstofnanir! Erlent vinnuafl sem hingað koma til að létta byrðarnar og skapa sér gott líf njóta hvorki jöfnuðar, réttlætis, né velferðar. Það er skömm að því – í ríki sem kennir sig við velferð.

Við þurfum að mynda samstöðu í að standa vörð um náttúru landsins, hún er ekki bara fyrir okkur heldur komandi kynslóðir og hana þarf að vernda.  Hugsum um afkomendur okkar, svo þeir geti notið íslenskrar náttúru um ókomna tíð.

Nú hefur verið talið upp ýmislegt sem miður hefur farið, en ein er sú kjarabót sem ég vil minnast á og það er stytting vinnuvikunnar sem að mínu mati er eina af betri kjarabótum sem við höfum náð fram í áratugi. Það er von mín að allt launafólk þessa lands fá notið styttri vinnuviku öllum til heilla.

Samstaða okkar er sterkasta vopnið sem við höfum í þessari baráttu, það hefur líka sýnt sig margoft í okkar litla landi að hún getur gert kraftaverk. Það er gott að hafa það í huga nú á baráttudegi launafólks.

Að lokum vil ég óska þess að við öll sem saman eru hér komin njóti dagsins.

Takk fyrir.