Finnur Víkingsson, formaður Rafiðnaðarfélags Norðurlands, flutti ávarp stéttarfélaganna við Eyjafjörð á 1. maí á hátíðardagskrá í menningarhúsinu Hofi í dag, að lokinni kröfugöngu frá Alþýðuhúsinu að Hofi.
Ávarpið var svohljóðandi:
Kæru félagar, til hamingju með baráttudaginn 1. maí!
Fyrir hönd stéttarfélagana á Akureyri og í nágrenni býð ég ykkur velkomin á þessa hátíðar dagskrá. Þetta árið hefur Rafiðnaðarfélagi Norðurlands verið falin forsjá með 1. maí og ég heiti Finnur Víkingsson og er formaður Rafiðnaðarfélagssins.
Yfirskrift 1. maí þetta árið er, Við vinnum!
Í dag 1. maí á hátíðs- og baráttudegi verkalýðshreyfingarinnar komum við saman til að líta yfir farinn veg. Hverju hefur barátta undanfarinna ára skilað okkur? Við komum líka saman til að horfa fram á veginn, til að velta fyrir okkur hver næstu verkefni okkar verða.
Fjölmörg þeirra réttinda sem vinnandi fólki þykja sjálfsögð í dag þurfti mikla baráttu og oft fórnir til að fá samþykkt. Það á við um samningsrétt, uppsagnarfrest, veikindarétt, fæðingarorlof, vinnuvernd, orlofsrétt, lífeyrissjóði, launajafnrétti, 40 stunda vinnuviku, styttingu vinnuvikunnar og margt fleira.
Þetta eru allt réttindi sem ekki er sjálfgefið að vari til frambúðar, ef við stöndum ekki saman.
Það skal engum detta í hug að við séum hætt að berjast fyrir betra og réttlátara þjóðfélagi því „við vinnum“. Við þurfum að berjast á móti þeirri sjálftöku launa sem nú hefur viðgengist á æðstu stöðum og þeirri stéttarskiptingu sem nú er að byggjast upp.
Það vekur ugg í brjósti og reiði almennings hvernig menn geta gengið fram og skammtað sér og sínum það sem þeir vilja og jafnvel gefið afslátt af eigum almennings við sölu þeirra.
Vinnandi fólk skapar verðmæti samfélagsins og heldur hjólum atvinnulífsins gangandi. Aldrei varð þetta skýrara en í gegnum heilan heimsfaraldur þar sem launafólk stóð vaktina og hélt öllu samfélaginu gangandi.
Í lok dags var það svo að mörg fyrirtæki gátu vel við unað í gegnum slíkt ófremdarástand sem faraldurinn var. Áður óséðar arðgreiðslur runnu óskiptar í vasa eigenda og kauphallir sprungu út.
Þetta góðæri fjármagnseigenda var borið uppi á bökum vinnandi fólks.
Reyndin er samt sú að enn búa hópar launafólks við kröpp kjör og ófullnægjandi laun þrátt fyrir að vinna fullan vinnudag. Þessir hópar eiga erfiðast uppdráttar á stökkbreyttum fasteignamarkaði.
Þessir hópar fá minnstan stuðning stjórnvalda. En þau eru líka við. Og við stöndum saman og við vinnum.
Við megum ekki gleyma þeim sem komnir eru á eftirlaun og hafa skilað sýnu til samfélagsins. Ekki heldur þeim sem hafa þurft að fara af vinnumarkaði vegna veikinda eða slysa. Stjórnvöldum ber að gera þessu fólki kleift að lifa eðlilegu lífi og ekki að hafa þá eða annað launafólk undir hungurmörkum. Verkalýðshreyfingi er afl sem fólk getur treyst og er ávallt tilbúið að berjast fyrir réttlæti.
Með samstöðu getum við náð fram brýnum kjarabótum fyrir þau okkar sem helst þurfa. Við höfum unnið marga sigra í gegnum tíðina og munum vinna marga fleiri.
Í haust losna kjarasamningar á almennum markaði og þá stöndum við saman til að vinna okkar málefnum brautargengi.
Félagar látum ekki sundra okkur, stöndum sterk saman í komandi baráttu.
Við erum fólkið sem skapar verðmætin með vinnu okkar. Við erum fólkið sem heldur samfélaginu gangandi, sama hvað á bjátar. Við erum launafólk í einu ríkasta landi heims.
Við erum sterk hreyfing sem vinnum sigra.
Munið að það er styrkurinn og virknin sem skiptir máli, að sitja hjá hjálpar engum né vinnur sigra.