Í gær átti SGS fund með Samtökum atvinnulífsins ásamt samfloti landssambanda og stærstu stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði. Um var að ræða fyrsta formlega fundinn um endurnýjun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.
Á fundinum samþykktu samningsaðilar eftirfarandi ályktun þar sem skorað er á fyrirtæki og opinbera aðila að halda aftur af verð- og gjaldskrárhækkunum:
„Samtök atvinnulífsins og breiðfylking landssambanda og stærstu stéttarfélaga á almenna vinnumarkaðinum hafa tekið höndum saman um gerð langtímakjarasamninga sem auka fyrirsjáanleika og stöðugleika í efnahagslífinu.
Samningsaðilar eru sammála um að eitt mikilvægasta verkefnið í komandi kjaraviðræðum sé að ná niður mikilliverðbólgu og háu vaxtastigi sem komið hefur hart niður ábæði heimilum og fyrirtækjum.
Til að það markmið náist verða allir aðilar vinnumarkaðarins, fyrirtæki landsins, ríki og sveitarfélög að leggjast á eitt og getur enginn skorast undan ábyrgð.
Samningsaðilar skora á fyrirtæki landsins, ríki og sveitarfélögað styðja við markmið kjarasamninganna um að ná niður verðbólgu og þar með vöxtum, með því að halda aftur af gjaldskrár- og verðhækkunum og launaskriði.”