Bónus var með lægsta meðalverð á matvöru í verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ sem framkvæmd var 28. mars. Verð í Bónus var að meðaltali 4% frá lægsta verði og verð í Krónunni 8%. Fjarðarkaup var 13% frá lægsta verði, Nettó 15% og Kjörbúðin og Hagkaup 22%. Heimkaup var með hæsta meðalverð sem var að meðaltali 36% hærra en lægsta verð en verð í Iceland var 35% frá lægsta verði.
Yfir 40% munur var á hæsta og lægsta verði á helmingi varanna í könnuninni eða á 73 vörum af 142. Þar af var yfir 60% verðmunur á 47 vörum. Sem dæmi má nefna 101% verðmun á kílóverði af ódýrasta samlokubrauði sem fékkst í verslununum, 60% verðmun á frosinni nautalund, 48% verðmun á kjúklingastrimlum og 166% verðmun á lægsta kílóverði af rauðkáli.