Mikill meirihluti landsmanna telur íslenskt samfélag ekki vera á réttri leið með tilliti til almannahagsmuna, samkvæmt nýrri þjóðmálakönnun Alþýðusambands Íslands (ASÍ).
Í könnuninni var spurt: Þegar þú horfir til hagsmuna almennings, telur þú íslenskt samfélag vera á réttri eða rangri leið?
Alls sögðust 68% þeirrar skoðunar að samfélagið væri frekar á rangri leið eða á mjög rangri leið með tilliti til almannahags.
Einungis 2% töldu samfélagið á mjög réttri leið og 15% töldu það á frekar réttri leið.
Alls lýstu 14% sig hlutlaus í málinu.
Um 71% kvenna töldu samfélagið á rangri leið en um 66% karla.
Alls töldu 65% fólks með háskólapróf samfélagið á rangri leið á móti 72% fólks með grunnskólapróf og 72% með framhaldsskólapróf.
Almennt virtust tekjur ekki hafa mikil áhrif á svör þátttakenda að undaskildum þeim tekjuhæstu þar sem 41% töldu samfélagið á réttri leið með tilliti til almannahagsmuna en 57% voru á öndverðri skoðun.