Peningastefnunefnd Seðlabanka Ísland tilkynnti í gær um ákvörðun sína um að hækka vexti um það sem nemur 0,5%. Meginvextir bankans (stýrivextir), vextir á sjö daga bundnum innlánum, hækka því úr 6% í 6,5%.
Með þessari ákvörðun leggur Seðlabankinn upp með að tryggja það að taumhald peningastefnunnar sé nægjanlegt til að verðbólga hjaðni. Miðstjórn ASÍ hefur gagnrýnt hækkunina í nýlegri ályktun.
Síðasta stýrivaxtaákvörðun peningastefnunefndar var 23. nóvember síðastliðinn, þegar vextir voru hækkaðir um 0,25%, og næsta ákvörðun verður 22. mars næstkomandi þar sem búast má við áframhaldandi hækkun stýrivaxta ef marka má hina svokölluðu framsýnu leiðsögn sem fylgdi yfirlýsingu peningastefnunefndar.
Seðlabanki Íslands bætist í hóp Seðlabanka Evrópu, Bandaríkjanna og Englands sem í síðustu viku hækkuðu vexti sína um 0,25-0,50 prósentustig. ASÍ hefur vakið athygli á yfirlýsingu Evrópusamtaka verkalýðsfélaga (ETUC) um að slíkar hækkanir komi til með að hafa bein og skaðleg áhrif á launafólk.