ASÍ styður kjarabaráttu launafólks í verksmiðju Bakkavarar í Bretlandi

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum í dag, miðvikudaginn 20. nóvember 2024:

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands lýsir yfir fullum stuðningi við kjarabaráttu félagsfólks UNITE í Bretlandi sem starfar hjá verksmiðju Bakkavarar í Spalding á Englandi. Bakkavör Group er að meirihluta í eigu íslenskra aðila og fulltrúar starfsfólks komu til Íslands á dögunum til að vekja athygli á sinni baráttu.

Bakkavör er einn stærsti matvælaframleiðandi Bretlands og hefur skilað hluthöfum gríðarlegum hagnaði undanfarin ár. Forstjóri fyrirtækisins er á ofurlaunum en félagsfólk UNITE starfar á afar lökum kjörum og vinnur á 12 tíma vöktum í rými sem er með hitastig á við ísskáp. Að sögn UNITE hafa laun starfsfólks rýrnað um tæp 11% undanfarin þrjú ár og dæmi er um starfsfólk sem þarf að reiða sig á matargjafir til að komast af. Ákall UNITE lýtur að því að fram fari raunverulega samningaviðræður til að leysa deiluna en sem stendur hafa hundruð félagsmanna verið í verkfalli í heilan mánuð. Bakkavör hefur á sama tíma fengið annað starfsfólk til að ganga í störf þeirra sem eru í verkfalli. 

Miðstjórn ASÍ styður sjálfsagðar kröfur UNITE og undirstrikar mikilvægi þess að rétturinn til þess að leggja niður störf sé virtur af viðsemjendum UNITE. Aðstæður félagsfólks UNITE og breskur vinnumarkaður er víti til varnaðar íslensku samfélagi og áminning um alvarleg áhrif niðurskurðarstefnu og skipulagðs niðurbrots á verkalýðshreyfingunni. Miðstjórn ASÍ sendir starfsfólki Spalding-verksmiðju Bakkavarar stuðnings- og baráttukveðjur og minnir á að barátta launafólks er í eðli sínu alþjóðleg.