ASÍ - Siðlausri skerðingu lífeyrisréttinda mótmælt

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands hefur samþykkt eftirfarandi ályktun:

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ)  lýsir yfir þungum áhyggjum vegna áforma ríkisstjórnarinnar um skerðingu á lífeyrisréttindum verka- og láglaunafólks.  Miðstjórn telur framgöngu ríkisstjórnarinnar í þessu efni ótæka með öllu. 

Í frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra til fjárlaga fyrir árið 2025 stendur til að skerða jöfnunarframlag vegna örorkugreiðslna lífeyrissjóða um tvo þriðju, rúma fimm milljarða króna, og miðað er við að fella framlagið alveg niður árið eftir. Áhrif þess koma þyngst niður á sjóðum verka- og láglaunafólks innan ASÍ sem áfram munu standa undir sínum hlut varðandi örorkutryggingar. Útreikningar sýna að með þessu móti mun ríkisvaldið skerða lífeyrisréttindi í sjóðum verkafólks upp undir fjögur prósent. Þannig hyggst ríkisstjórnin ráðast gegn kjörum þeirra sem síst skyldi,  verka- og láglaunafólki ásamt eldri borgurum úr röðum þess. 

 Miðstjórn minnir á að jöfnunarframlaginu var komið á í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórnar við kjarasamninga árið 2005  til að bregðast við vaxandi umfangi örorku og hversu misjafnlega sá aukni kostnaður  féll á einstaka sjóði. Í að verða tvo áratugi hefur ríkið þannig gengist við og axlað eðlilega ábyrgð á því að rétta af stöðu lífeyrissjóða eftir umfangi örorku innan þeirra. Örorka er umfangsmest meðal lífeyrissjóða á samningssviði ASÍ og SA. Óumdeilt er að hluti framlagsins  rennur til lífeyrissjóða með takmarkaða örorku. Miðstjórn telur sjálfsagt að það fyrirkomulag verði endurskoðað. 

 Á næsta ári verða tekin jákvæð skref til að treysta betur framfærslu fólks með örorku. Með breytingum á örorkulífeyri almannatrygginga er jafnframt stefnt að því að auðvelda þeim sem tök hafa á að snúa aftur á vinnumarkað. Úrbætur á örorkulífeyri almannatrygginga og árangur í að lækka tíðni örorku með nýju kerfi mun ekki jafna eða bæta fyrir ólíkt umfang örorku milli lífeyrissjóða. Miðstjórn ASÍ hvetur fjármálaráðherra til þess að láta af áformum um að skerða og fella niður framlag ríkisins til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða.

Sú breyting sem boðuð er í frumvarpinu er að mati miðstjórnar sem blaut tuska í andlit verka- og láglaunafólks í landinu. Ljóst er að Alþýðusambandið getur aldrei samþykkt einhliða ákvörðun stjórnvalda um að skerða stórlega lífeyrisréttindi þess sem fólks sem vinnur erfiðustu störfin og ber minnst úr býtum. Slík framganga er enda siðlaus og með öllu óboðleg.