ASÍ - Nýr dómur: Sendlar Wolt í Noregi eru í ráðningarsambandi

Mynd af vef ASÍ
Mynd af vef ASÍ

Á heimasíðu ASÍ segir að þann 4. mars sl. kvað undirréttur á Oslóarsvæðinu í Noregi upp afar mikilvægan dóm um réttarstöðu þriggja einstaklinga sem starfað hafa undanfarið sem sendlar fyrir fyrirtækið Wolt þar í landi. Dómurinn staðfestir í öllum aðalatriðum að umræddir einstaklingar séu í ráðningarsambandi í skilningi norskra réttarheimilda. (sjá frétt frá systursamtökum ASÍ í Noregi)

Halldór Oddsson, sviðsstjóri Lögfræði- og vinnumarkaðssviðs ASÍ, segir þar m.a. að aðdragandi málsins er sígildur fyrir sambærileg mál sem fallið hafa víða í Evrópu. Nánar tiltekið er um að ræða þrjá einstaklinga sem starfað hafa hjá Wolt á Oslóarsvæðið um nokkurt skeið við að sendast með mat og annað sambærilegt til viðskiptavina. Umræddir einstaklingar töldu skilmála Wolt til handa sendlum ekki vera í samræmi við norska löggjöf um réttindi og starfsumhverfi starfsfólks. Kröfur þeirra um leiðréttingu á kjörum sínum var hafnað af hálfu Wolt og var því fyrir tilstilli viðeigandi stéttarfélaga höfðað mál gegn Wolt til viðurkenningar á því umræddir einstaklingar séu í ráðningarsambandi í skilningi norskra laga. Nú liggur fyrir niðurstaða í undirrétti og er hún nokkuð afdráttarlaus á þann veg að umræddir sendlar séu í ráðningarsambandi og í því ljósi skuli þeir njóta sambærilegra kjara og réttinda og aðrir á norskum vinnumarkaði. Niðurstaða dómsins er sú að kaup og kjör þremenninganna skuli því leiðréttast aftur í tímann og samtals var Wolt dæmt til að greiða þeim ýmsar launaleiðréttingar sem nemur 900.000 norskum krónum (tæplega 11.000.000 íslenskar krónur).

Ljóst er að dómurinn hefur mikla þýðingu fyrir starfandi Wolt-sendla í Noregi. Reynslan sýnir þó líka að viðbrögð gigg-fyrirtækja við dómum sem eru óhagfelldir þeim eru þau að gera einhliða breytingar á samningsskilmálum til að kasta rýrð á fordæmisgildi dóma. Í öllu falli er þó ljóst að niðurstaðan gefur sendlum og stéttarfélögum í Noregi byr undir báða vængi í baráttunni fyrir sanngjörnu gigg-hagkerfi.

ASÍ mun fylgjast með þróun mála næstu misserin í Noregi. Vonir þar ytra standa til þess að niðurstaða dómsins muni loks ýta Wolt að kjarasamningsborðinu að einhverri alvöru. Ljóst er að hagfelld niðurstaða fyrir félaga okkar í Noregi mun hafa áhrif til hins betra hér á landi en sérfræðingar ASÍ hafa áður gagnrýnt ábyrgðarleysi fyrirtækisins gagnvart sendlunum sem vinna verkin.