Stjórnvöld hafa á undan liðnum árum gripið til ráðstafana sem fært hafa beinan húsnæðisstuðning til hinna tekjuhæstu í samfélaginu. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýju mánaðaryfirliti Sviðs stefnumótunar og greininga hjá Alþýðusambandi Íslands (ASÍ).
Í yfirlitinu kemur fram að þessi tilfærsla hafi átt sér stað í gegnum skattfrjálsa ráðstöfun séreignarsparnaðar til niðurgreiðslu húsnæðislána. Á sama tíma hefur markvisst verið dregið úr stuðningi í gegnum vaxtabótakerfið sem einkum nýtist ungum og tekjulágum.
Nefnt er að árið 2013 hafi beinn fjárhagslegur stuðningur við heimili í formi vaxtabóta numið 9,3 milljörðum króna. Árið 2020 höfðu útgjöld ríkisins vegna þessa lækkað um 75% sökum þeirrar stefnubreytingar að innleiða stuðning í formi skattaívilnunar vegna ráðstöfunar séreignarsparnaðar inn á fasteignalán. Sá stuðningur var að hluta mótvægi við skerðingu vaxtabóta. Á heildina lækkaði beinn stuðningur til heimila með íbúðalán um 25%. Tekjuhæstu 10% þeirra sem eru með íbúðalán njóta um helmings af þeim stuðningi sem skattfrelsið veitir.