Landsmenn njóta ekki bættrar afkomu banka

Auður Alfa Ólafsdóttir, fulltrúi Alþýðusambands Ísland í starfshópi ráðherra
Auður Alfa Ólafsdóttir, fulltrúi Alþýðusambands Ísland í starfshópi ráðherra

Afkoma íslensku bankanna hefur batnað hin seinni ár m.a. sökum lækkandi rekstrarkostnaðar. Þrátt fyrir það helst vaxtamunur nær óbreyttur og er hann mun meiri en hjá bönkum á öðrum Norðurlöndum.  

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í skýrslu starfshóps um gjaldtöku og arðsemi viðskiptabankanna sem gerð var opinber á þriðjudag. Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, skipaði starfshópinn og var henni afhent skýrsla hans.  

Batnandi afkoma bankanna skilar sér almennt ekki til viðskiptavina þeirra. Þannig var vaxtamunur nánast sá sami í fyrra og árið 2018 sem er upphafspunktur viðmiðunartímabils skýrsluhöfunda. Þetta er þrefaldur vaxtamunur miðað við það sem þekkist hjá stórum norrænum bönkum. Vaxtamunurinn á Íslandi er einnig meiri en hjá norrænum bönkum sem eru sambærilegir þeim að stærð.  

Óljósar verðskrár torvelda aðhald 

Starfshópurinn gagnrýnir bankana fyrir óljósar og flóknar verðskrár. Þannig viti viðskiptavinir iðulega ekki hvað það er sem þeir borga fyrir og hversu mikið. Sökum þessa búi fjármálafyrirtæki þessi ekki við nægilegt aðhald af hálfu almennings.  

Frá árinu 2018 hefur rekstrarkostnaður íslensku bankanna sem hlutfall af tekjum lækkað um 12 prósentustig og mælist nú 47 prósent.  

Rekstur bankanna þriggja hefur aldrei gengið betur. Reglulegar tekjur þeirra hafa aukist og hagræðing og aðhald hefur leitt til raunlækkunar á kostnaði. Í skýrslunni kemur fram að arðsemi íslensku bankanna er að meðaltali meiri en meðaltal banka af svipaðri stærð á hinum Norðurlöndunum, hvort sem litið er til arðsemi í hlutfalli við eigið fé eða heildareignir.  

Auður Alfa Ólafsdóttir, fulltrúi Alþýðusambands Íslands, í starfshópi ráðherra: 

„Það er fagnaðarefni að skýrslan sé komin út. Hún sýnir svart á hvítu að kostnaður við að veita bankaþjónustu hefur lækkað til muna síðustu ár vegna tækniþróunar og sjálfvirknivæðingar en þjónustugjöld hafa samt sem áður hækkað í takt við almennt verðlag. Gjaldtaka bankanna endurspeglar því greinilega ekki kostnað þeirra við að veita þjónustuna.

Þá er sláandi að sjá hversu lítill munur er á verði á þjónustu milli bankanna og hvernig bankarnir hækka verð í takt en allt eru þetta skýrar vísbendingar um að takmörkuð samkeppni sé á bankamarkaði.  

Við gerð skýrslunnar rákum við okkur einnig á hvað ýmis gjaldtaka bankanna er dulin og hvað neytendur hafa takmörkuð tækifæri til að átta sig á þeim kostnaði sem felst í bankaþjónustu. Þegar það krefst  yfirlegu fjölskipaðs starfshóps og margra mánaða vinnu nokkurra sérfræðinga að ná utan um gjöld bankanna og þann kostnað sem fellur á einstaklinga þeirra vegna, segir það sig sjálft að það er ekki á færi neytenda að ná utan um þennan kostnað og gera verðsamanburð á bankaþjónustu. 

Þessi skýrsla er þó bara fyrsta skrefið af mörgum. Næstu skref eru að skoða hvaða breytingar þurfi að gera á samkeppnisumhverfinu og hvernig þurfi að efla neytendavernd hér á landi sem er lakari en gengur og gerist í nágrannalöndunum.”