ASÍ - Kílómetragjald rýrir lífsgæði almennings

Á heimasíðu ASÍ segir að Alþýðusamband Íslands geri margvíslegar athugasemdir við áform stjórnvalda um frumvarp til laga um kílómetragjald vegna notkunar ökutækja. Í umsögn um áformað frumvarp stjórnvalda kemur m.a. fram að ASÍ er afar gagnrýnið á stefnu stjórnvalda í samgöngumálum og telur margvíslega ágalla vera á fyrirhuguðum breytingum á gjaldtöku af bifreiðum og notkun þeirra. 

Í umsögninni gagnrýnir ASÍ harðlega samráðsleysi stjórnvalda við fulltrúa launafólks í tengslum við áform um breytta gjaldtöku vegna notkunar ökutækja. Áformin feli í sér umfangsmiklar breytingar á gjaldtöku af bifreiðum sem snerta launafólk og almenning allan. Samgöngur séu enda annar stærsti útgjaldaliður íslenskra heimila og hlutfall kostnaðar vegna samgangna af heildarútgjöldum íslenskra heimila sé meðal þess hæsta sem gerist í Evrópu. 

Fyrirhugaðar breytingar séu síst til þess fallnar að draga úr þeirri gjaldtöku. Ýmsir ágallar séu á útfærslu stjórnvalda á kílómetragjaldi sem sé  að mati Alþýðusambandsins ekki til þess fallin að stuðla að jafnræði milli bílaeigenda. Þá sé enn óljóst hvernig stjórnvöld ætli að haga gjaldtöku á stórnotendur vegakerfisins sem valdi mun meira álagi á vegakerfið en fólksbílar. 

Kemur verst niður á hinum tekjulægri 

Ljóst sé að tilkoma kílómetragjalds með hækkun á kolefnisskatti og fyrirhuguðu árgjaldi muni koma verr niður á tekjulægri hópum sem hafi síður efni á að skipta yfir í rafbíl. Þá hafi stjórnvöld brugðist í að tryggja aðgengi almennings að góðum og skilvirkum almenningssamgöngum og svift almenning þannig möguleikanum á að draga úr útgjöldum til samgangna og komast undan síaukinni gjaldtöku af bifreiðum. Aðgerðir stjórnvalda í samgöngumálum hafi neikvæð áhrif á jöfnuð, séu til þess fallnar að draga úr ráðstöfunartekjum heimila og hafi neikvæð áhrif á lífsgæði almennings.  

Þá sé það vafa undiropið hve vel aðgerðir stjórnvalda í samgöngumálum styðja við markmið í loftslagsmálum.  

Tekjustofnar veiktir og almenningur látinn borga 

Þrátt fyrir háa gjaldtöku stjórnvalda af almenningi setji stjórnvöld minna fjármagn í uppbyggingu og viðhald á vegakerfinu en sem tekjum ríkissjóðs af gjaldtökunni nemi. Afleiðingin  sé vanfjármagnað vegakerfi og há innviðaskuld. Á sama tíma hafi tekjustofnar ríkisins verið veiktir. Almenningur sé því látinn bera byrðarnar af fjármögnun vegakerfisins á meðan stjórnvöld hlífi þeim sem hafa breiðari bök í samfélaginu.