ASÍ - Hvað varð um vaxtabæturnar?

Í nýútgefnu mánaðaryfirliti Stefnumótunar og greiningar ASÍ var að finna umfjöllun um skattfrjálsa ráðstöfun séreignarsparnaðar og samanburð á því hvernig úrræðið nýtist tekjuhærri hópum tekjudreifingar heldur en vaxtabótakerfið. Stjórnvöld hafa á undanförnum árum lagt aukna áherslu á að styðja við ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán með skattfrjálsri ráðstöfun. Þessi áherslubreyting hefur orðið á kostnað vaxtabótakerfisins sem hefur verið markvisst veikt síðastliðinn áratug. Vaxtabótakerfið var einnig til umfjöllunar í nýlegum kjarafréttum Eflingar, en þar kom m.a. fram að framteljendum sem fengu vaxtabætur hefði fækkað úr 45 þúsund árið 2013 í einungis 15 þúsund árið 2020. Hvers vegna fá æ færri vaxtabætur og hvers vegna hefur kostnaður við vaxtabótakerfið dregist saman?

Eignarskerðingar hafa veikt vaxtabótakerfið
Vaxtagjöld af húsnæðislánum mynda rétt til vaxtabóta. Vaxtabætur geta að hámarki orðið 420 þúsund á einstakling á ári, 525 þúsund fyrir einstætt foreldri og 630 þúsund fyrir hjón. Endanlegar vaxtabætur ráðast hins vegar af nokkuð flóknu samspili eignastöðu, tekna og eftirstöðva skulda. Vaxtagjöld sem koma til útreiknings og ráða vaxtabótum eru sú fjárhæð sem er lægst af vaxtagjöldum, 7% af eftirstöðvum skulda eða hámarks vaxtagjöldum sem leyfileg eru. Sú fjárhæð skerðist svo eftir bæði tekjum eða eignum.

Sjá nánar hér