Verðbólga og gríðarlegur vandi á húsnæðismarkaði eru stærstu áskoranir á vettvangi efnahagsmála hér á landi á næstu misserum. Því vekur vonbrigði að stjórnvöld hyggist ekki bregðast við þessum stóru og vandasömu verkefnum. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í umsögn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) um fjármálaáætlun stjórnvalda fyrir árin 2024-2028. Umsögn um fjármálaáætlun má nálgast í heild sinni hér.
Í umsögninni segir að útgjöld hafi vaxið umfram áætlanir. Gagnrýnt er að ekki sé ráðist í skynsamlega tekjuöflun. Tekjuauka sem skýrist af stöðu hagsveiflunnar sé því ráðstafað í útgjöld og nýtist því ekki til að draga úr opinberum skuldum.
Röng forgangsröðun stjórnvalda
Áherslur ríkisstjórnarinnar í skattamálum eru gagnrýndar með þeim rökum að þær hafi beinlínis gengið gegn hjöðnun verðbólgu er þá vísað til skatta- og gjaldahækkana um síðustu áramót sem stóðu undir meira en helmingi hækkunar vísitölu neysluverðs í janúarmánuði. Í umsögninni telur sambandið að beita hefði þurft annarri tekjuöflun við svo hátt verðbólgustig, „ASÍ telur að ganga þurfi lengra í eflingu tekjustofna hins opinbera og að horfa þurfi m.a. til auðlindagjalda og umbóta í skattlagningu fjármagnstekna,” segir m.a. í umsögninni. Er þar m.a. vísað til þess að auðlindarenta í sjávarútvegi hafi numið 56 milljörðum á árinu 2021.