Þegar skortur er á samkeppni eiga fyrirtæki auðveldara með að velta verðhækkunum yfir á neytendur. Verðbólga og aðstæður á markaði eins og þær sem hafa skapast í kjölfar Covid faraldursins og stríðsins í Úkraínu geta ýtt enn frekar undir slíkar aðstæður. Mikil umræða hefur átt sér stað um verðlag og verðhækkanir í tengslum við Covid og stríðið í Úkraínu. Verðlagseftirlit ASÍ hefur í því samhengi bent á að miklar verðhækkanir séu á skjön við góða rekstrarafkomu fyrirtækja á mörkuðum þar sem verð hefur hækkað mikið.
Þróun verðlags var sérstök ástæða fyrir því að Samkeppniseftirlitið réðist í upplýsingaöflun með það að markmiði að greina áhrif þessara ytri aðstæðna á verðlag á dagvörumarkaði, eldsneytismarkaði og byggingarvörumarkaði og koma auga á mögulega samkeppnisbresti. Hér verður farið yfir þær niðurstöður sem snúa að íslenskum dagvörumarkaði en dagvara er vara sem er keypt dagsdaglega til heimilisnota svo sem matvara, hreinlætisvara og snyrtivara. Frekari skilgreiningar á þeim hugtökum sem fjallað er um í þessari samantekt má finna í lok fréttarinnar.
Helstu niðurstöður upplýsingaöflunar Samkeppniseftirlitsins eru þær að framlegð íslenskra dagvörusala jókst um 29% á árunum 2017-2021 en á sama tímabili jókst framlegð heildsala um 14%. Framlegð varpar ljósi á hvernig sala hefur áhrif á arðsemi. Framlegð er notuð yfir tekjur að frádregnum breytilegum kostnaði. Eftir að fastur kostnaður hefur verið dreginn frá framlegðinni stendur eftir hagnaður eða tap. Hærri framlegð skilar því meiri arðsemi að því gefnu að fastur kostnaður hækki ekki.